Gangan að gos­stöðvunum í Mera­dölum er í heildina þremur klukku­stundum lengri en gangan að gos­stöðvunum í Geldinga­dölum. Þetta segir Geir Finns­son, framhaldsskólakennari, í sam­tali við Frétta­blaðið en hann gekk þangað í gær­kvöldi.

„Ég hlýddi ekki Víði,“ segir Geir og vísar í slag­orðið „Ég hlýði Víði“ sem varð vin­sælt í heims­far­aldri Co­vid-19, en Víðir Reynis­son, yfir­lög­reglu­þjónn al­manna­varna­deildar Ríkis­lög­reglu­stjóra, varaði í gær fólki við að fara að gos­stöðvunum strax. Unnið sé að því að gera að­gengi að þeim betra.

Geir gekk með vini sínum að gos­stöðvunum í gær­kvöldi. „Við vorum komnir að upp­hafi göngu­leiðarinnar í kringum ellefu leitið í gær­kvöldi og vorum komnir að sjálfu gosinu upp úr klukkan tvö,“ segir hann. Um er því að ræða rúmlega sex klukkustunda verkefni fyrir hraust göngufólk.

Gengur fram hjá gömlu gos­stöðvunum

Göngu­leiðin er að megninu til sama göngu­leið og að gos­stöðvunum í Geldinga­dal, að sögn Geirs.

„En svo gengur maður þvert í áttina norður með­fram allri hraun­breiðunni frá gamla gosinu og í áttina að Keili, svo þegar maður fer ofan í dalinn þá blasir gosið við manni,“ segir hann og á­ætlar að göngu­leiðin sé einum og hálfum tíma lengri aðra leiðina en bendir þó á að tími göngunnar velti eðli­lega á göngu­hraða hvers og eins.

Fjöldi fólks var við gosstöðvarnar í nótt.
Mynd/Geir Finnsson

Úti­há­tíðar­stemning í gær­kvöldi

Geir segir að þrátt fyrir að þeir vinirnir hafi lagt seint af stað hafi fjöldi fólks verið við gos­stöðvarnar. „Þetta var al­vöru úti­há­tíðar­stemning,“ segir hann.

„Það fór að fækka þegar við vorum á leiðinni að gosinu, þá voru frekar fleiri að fara frá því. Þá sá maður stöðugan straum af höfuð­ljósum, það sýndi okkur leiðina vel,“ segir Geir.

Geir segir það hafa komið sér skemmti­lega á ó­vart hvað það voru margir á staðnum en að hans mati var fólk al­mennt að hegða sér vel. „Það er bara rosa­legur hiti ná­lægt hrauninu, það er bara veggur út á fyrir sig,“ segir hann.

Gíginn í Geldingadölum má sjá hér til hægri ásamt bjarma frá gosinu í Meradölum.
Mynd/Geir Finnsson

Björgunarsveitin Þorbjörn birti í dag leiðbeiningar hvernig best sé að komast að gosinu. Sjá má færslu þeirra hér að neðan.