Bóndi sem býr í grennd við fyrirhugaða Hnútuvirkjun í Hverfisfljóti í Vestur-Skaftafellssýslu segist ekki sjá neikvæð áhrif af virkjun. „Ég hef verið fremur hlynntur þessum áformum,“ segir Lárus Helgason á Kálfafelli í Fljótshverfi. Hann segir það gamla og nýja sögu að menn leiti leiða til að virkja alls konar sprænur og bæjarlæki í rafvæðingunni. „Það var við því að búast að þarna kæmi upp svona mál,“ segir Lárus. Hart er deilt um áhrif virkjunarinnar á náttúruna. Hluti hennar nýtur sérstakrar verndar í náttúruverndarlögum samkvæmt mati minnihluta hreppsnefndar og framkvæmdastjóra Landverndar. Vatnsmagn Lambhagafoss mun rýrna. Eldhraun Skaftárelda sem varð til er móðuharðindin dundu yfir mun klofna í sundur með vegagerð vegna virkjunarinnar og stöðvarhúsið verður mjög stutt frá fossunum.

Lárus segir að hraun búi í dag við mikla lagalega vernd sem mörgum þyki umdeilanleg í „öllum okkar miklu hraunflákum“, eins og hann segir. „Ef þetta svæði væri aðgengilegra ferðamönnum væri það fjölsótt og kannski fjölsóttara en myndi gegna góðu hófi. Virkjun sem ekki er stærri en þetta ætti varla að vera mikið fyrir.“ Spurður hvort héraðið sé klofið í afstöðu sinni svarar Lárus að hann telji þá færri sem standi gegn virkjun en hina sem styðja virkjun.