Nóg var um að vera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt en alls voru 52 mál skráð í dagbók lögreglu. Tveir voru vistaðir í fangageymslu en annar þeirra hafði brotist inn í skartgripaverslun á Laugaveginum.

Lögregla fékk tilkynningu um innbrotið skömmu eftir klukkan eitt í nótt en þegar lögregla mætti á vettvang hafði þjófurinn hlaupist á brott. Vitni gat þó gefið greinargóða lýsingu á manninum og náðist þjófurinn skömmu síðar í nærliggjandi götu. Hann hafði meðferðis fullan poka af skartgripum en verðmæti þeirra eru nokkrar milljónir króna.

Starfsfólk óskaði eftir aðstoð

Þá óskaði starfsfólk kaffihúss í miðbænum eftir aðstoð lögreglu á sjöunda tímanum í gær þar sem æst kona hafði komið inn og heimtað þjónustu meðan verið var að loka staðnum. Þegar henni var neitað um aðstoð og vísað út greip hún veitingar ófrjálsri hendi og neytti þeirra fyrir framan starfsfólkið. Konan rauk í kjölfarið út og bar leit lögreglu að henni ekki árangur.

Starfsmaður matvöruverslunar í austurbænum óskaði sömuleiðis eftir aðstoð lögreglu á sjötta tímanum í gær þar sem tveir illa útlítandi menn höfðu í ofbeldishótunum við starfsfólk. Mennirnir voru þó farnir þegar lögregla kom á staðinn og bar leit af þeim ekki árangur.

Eldur og tilraun til fjárkúgunar.

Tilkynnt var um lausan eld í timburhúsi í Garðabæ korter fyrir átta í gærkvöldi en var þar einn talinn lokaður inni. Að því er kemur fram í dagbók lögreglu reyndist aðeins vera um eld í potti að ræða og var búið að slökkva eldinn þegar viðbragðsaðilar mættu á vettvang. Slökkvilið reykræsti og varð ekkert eiginlegt tjón.

Að lokum óskaði maður eftir aðstoð lögreglu vegna hótana sem hann varð fyrir og tilraunar til fjárkúgunar en tveir menn höfðu þá sakað manninn um að setja sig í samband við stúlku undir lögreglu og heimtuðu af honum peninga.

Fjórir kærðir fyrir akstur án ökuréttinda

Þá voru fjórir ökumenn kærðir í gærkvöldi fyrir akstur án ökuréttinda auk þess sem þrír voru handteknir vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Í einu tilfellinu hafði ökumaðurinn verið stöðvaður vegna hraðaksturs í Árbæ en við leit í bílnum fundust neysluskammtar fíkniefna.

Meðal annarra verkefna lögreglu voru tilkynning um konu í alvarlegu ástandi að stöðva umferð í miðbænum, slagsmál í Austurstræti, og tilkynning frá leigubílstjóra um menn sem hlupu frá ógreiddu fargjaldi.