„Hér eru allir enn sem komið er við góða heilsu og ekkert smit komið upp í starfsmannahópnum,“ segir Einar Á.E. Sæmundsen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum.

Þótt enginn starfsmaður þjóðgarðsins hafi orðið fyrir barðinu á COVID-19 sjúkdómnum, fyrir utan einn óbeint sem var um tíma í sóttkví, fer heimsfaraldurinn mjög óblíðum höndum um reksturinn á Þingvöllum.

„Þetta ástand hefur mikil áhrif á tekjugrundvöll þjóðgarðsins og mögulegt tekjufall um og yfir 300 milljónir króna,“ segir Einar. Haft hafi verið samband við umhverfis- og auðlindaráðuneytið og fjárframlag fengist til að standa við ráðningar í sumar.

„Við verðum hins vegar að laga okkur að þessu en óhjákvæmilegt er að þetta hafi áhrif á rekstur og þjónustu þjóðgarðsins. Ég get ekki farið dýpra í það á þessu stigi enda er verið að kortleggja þetta frekar,“ heldur þjóðgarðsvörður áfram.

EinarÁE Sæmundsen.jpg

Einar Á. E. Sæmundsen

Að sögn Einars hefur þessi staða ekki áhrif á allar framkvæmdir því sértekjur sem þjóðgarðurinn afli fari til rekstrarins en nýframkvæmdir séu margar og eru fjármagnaðar af föstum fjárliðum eða innviðaáætlun. „Við erum meðal annars að hefja byggingu á salernum í þinghelginni og einnig á útsýnispalli við Hrafnagjá og aðrar minni framkvæmdir eru í undirbúningi,“ segir hann.

„Annars er hér allt mjög rólegt svo ekki sé meira sagt. Í fyrstu viku eftir samkomubann voru einhverjir ferðamenn á ferð en nú eru einfaldlega engir á ferð,“ segir Einar. Reyndar hafi einn gestur sýnt sig nýlega.

„Í síðustu viku var þó einn Íslendingur gómaður við að reyna að fiska peninga upp úr Peningagjá af landverðinum sem þá var á vakt. Hann lét sér segjast og hætti eftir stutt tiltal frá landverðinum,“ lýsir þjóðgarðsvörður sem virðist ekki sjá mikið eftir þessum gesti þótt sjaldgæfur hafi verið.

Ljós í myrkrinu berst síðan innan tíðar úr Þingvallavatni sjálfu er ísaldarurriðinn fer á stjá. Veiðin byrjar mánudaginn 20. apríl og má búast við því að margur veiðimaðurinn láti sjá sig,“ spáir Einar þjóðgarðsvörður.