Talsvert tjón varð á golfvellinum í Grindavík eftir óveðri sem gekk yfir landið fyrir helgi.

„Þetta er mikið tjón. Talsvert mikið er af grjóti á við og dreif. Það flæddi líka sjór yfir völlinn og það var allt á floti,“ segir Helgi Dan Steinsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Grindavíkur.

„Við höfum verið að meta ástandið á vellinum. Þetta verður mikið verkefni fram undan að laga völlinn og bæta tjónið en við bara brettum upp ermar og göngum í verkið.“

Myndir af vellinum birtust á Facebook síðu Golfvallarins fyrir helgi. Völlurinn er nánast óþekkjanlegur eftir sjávarflóðið í óveðrinu en þá var rauð viðvörun í gildi á Reykjanesi.

Helgi Dan segir að þrátt fyrir tjónið þá sé þetta að sjálfsögðu engin endalok fyrir Golfklúbbinn. „Það er alltaf hægt að koma við hjá okkur og leika nokkrar holur. Við opnum svo almennilega í apríl.“