Jón Magnús Jóhannes­son, deilda­læknir á Land­spítalanum, segir í svari á Vísinda­vef Há­skóla Ís­lands að erfitt sé að bera CO­VID-19 saman við fyrri inflúensu­far­aldra. Það segir hann í svari við spurningum um hvort „CO­VID-19 sé nokkuð hættu­legri en inflúensan“.

Í svarinu segir Jón Magnús að nú­verandi heims­far­aldur sé iðu­lega borinn saman við fyrri heims­far­aldra in­flúensu og ef svo er gert þurfi að passa hvað sé verið að bera saman.

„Ef það er gert á þann hátt að leið­rétta fyrir aldri, með­ferðar­úr­ræðum og að­stæðum hverju sinni, benda nær öll gögn til þess að CO­VID-19 sé mun skæðari sjúk­dómur en inflúensur sem valdið hafa heims­far­öldrum,“ segir í svarinu.

Svo er þó tekið fram að það verði að hafa í huga að saman­burður á heims­far­aldri sem enn stendur yfir og heims­far­aldri sem er yfir­staðinn er ó­mögu­legur.

„Ekki er hægt að meta endan­legan fjölda til­fella og dauðs­falla smit­sjúk­dóms í miðjum far­aldri.“

Jón Magnús Jóhannes­son er deilda­læknir á Land­spítalanum.
Mynd/Vísindavefurinn

Óskandi að þetta væri eins og önnur flensa

Spurður hvort honum þyki skrítið eftir allt sem á er gengið undanfarið ár að fólk beri sjúk­dómana saman og segi að CO­VID-19 sé ekki verri en önnur inflúensa segir hann það svo vera.

„Það eru nokkar há­værar raddir sem eru að tala um þetta, og það er oft hlustað á þær í stað þess að horfa á gögnin sem eru mjög skýr að þetta er skað­legra,“ segir Jón Magnús.

Hann segir, eins og kemur fram í greininni, að erfitt sé að bera saman tvo smit­sjúk­dóma, en að í þessu til­felli séu 1,4 milljón dauðs­föll vegna CO­VID-19.

„Engin fyrri árs­tíða­bundin svína­f­lensa eða inflúensa hefur komið ná­lægt því. Það er auð­vitað til­hneiging til að líta til annarra svipaðra sjúk­dóma, en þetta er bara allt annar sjúk­dómur,“ segir Jón Magnús.

Heldurðu að það tengist far­sóttar­þreyttunni sem oft er talað um?

„Á­byggi­lega að hluta. Það væri ó­skandi að þetta væri svipað og hefð­bundin flensa. Auð­vitað vill maður það. En sann­leikurinn er sá að þetta er al­var­legra. En auð­vitað skilur maður að það er mikil þreyta í fólki,“ segir Jón Magnús og bætir við:

„Maður verður að horfa á heildar­myndina. Það er ekki bara dauði. Það er ekki svo ein­falt að maður annað hvort lifi eða deyi. Það er fullt af fólki núna með CO­VID-19 eða sem fékk CO­VID-19 í vor sem er enn ekki búið að ná sér. Auð­vitað eru það ekki allir. Það eru margir sem sleppa vel en við verðum að átta okkur á þeim raun­veru­leika að það er ekki þannig hjá mörgum, mark­tækum fjölda, og við þurfum auð­vitað að bregðast við því,“ segir Jón Magnús

1,4 milljón dauðsfalla samhliða miklum inngripum

Nú hafa tæp 60 milljón til­felli af CO­VID-19 verið stað­fest og rúm­lega 1.400.000 dauðs­föll. Jón Magnús segir í svari sínu að það sé þó mikil­vægt að taka til­lit til þess að þar með sé ekki öll sagan sögð. Hann segir að báðar tölurnar séu van­mat og að endan­legt mat á skað­semi fyrri inflúensu­far­aldra hafi ekki legið fyrir fyrr en mörgum árum eftir að þeim lauk.

„Ef litið er til árs­tíða­bundinna far­aldra in­flúensu er metið að úr þeim deyi ár­lega um 250.000 - 650.000 ein­staklingar. Það er aug­ljós­lega langtum lægra en dauðs­föll vegna CO­VID-19, sér­stak­lega ef við höfum í huga að þau dauðs­föll sem þegar hafa orðið eiga sér stað sam­hliða ströngustu lýð­heilsu­inn­gripum síðustu 100 ára,“ segir Jón Magnús og vísar til sam­komu­tak­markana og ýmissa sótt­varna sem gripið hefur verið til vegna far­aldursins.

„Tölurnar sem við sjáum núna eru sam­hliða þessum ó­trú­lega miklu inn­gripum í sam­fé­laginu. Það má ekki gleyma því að án þeirra getum við ekki í­myndað okkur hverjar tölurnar væru,“ segir Jón Magnús.

Hann segir að endan­legur skaði af CO­VID-19 muni ekki liggja ljós fyrr en eftir fjölda ára. Saman­burður á þessum tíma­punkti gefur engu að síður skýra niður­stöðu um hvert stefnir.

Fréttin er unnir úr svari Jóns Magnúsar Jóhannes­sonar á Vísinda­vef Há­skóla Ís­lands og við­tali sem tekið var við hann í dag 1.12.2020.