Kona frá Nebraska í Banda­ríkjunum hefur verið kærð fyrir að hjálpa sau­tján ára dóttur sinni að komast í þungunar­rof. Málið kom í ljós eftir að Face­book af­henti lög­reglu gögn sem sýndu skila­boða­sam­skipti þeirra þar sem þær ræddu um þungunar­rofið. For­bes greinir frá þessu.

Dóttirin var komin tuttugu og fjórar vikur á leið en lög í Nebraska banna þungunar­rof eftir tuttugu vikur. Sak­sóknari í málinu segir að þetta sé í fyrsta skiptið í ríkinu sem ein­hver er kærður fyrir ó­lög­legt þungunar­rof, lög um bann á þungunar­rofi eftir tuttugu vikur tóku gildi árið 2010.

Í gögnum frá Face­book sem sýna skila­boða­sam­skipti mæðgnanna kemur fram að þær hafi rætt fram­kvæma þungunar­rof með lyfjum. Móðirin sendi dótturinni skila­boð um að hún hefði komist yfir lyf, síðar fylgdu leið­beiningar um hvernig hún ætti að inn­byrða þau.

Slík lyf eru örugg leið til þess að fram­kvæma þungunar­rof en eru oftast ekki notuð þegar konan er er komin lengra en ellefu vikur á leið.

Sam­kvæmt banda­rísku lyfja- og mat­væla­stofnuninni (FDA) er leyfi­legt að fram­kvæma þunguna­rof með lyfja­með­ferð á fyrstu 10 vikum með­göngunnar. Um að ræða tvær töflur sem eru teknar með 24 til 48 tíma milli­bili.

Dóttirin svarar skila­boðunum þannig að hún geti ekki beðið eftir því að „fá þennan hlut úr líkamanum“ og „Ég get loksins notað galla­buxur aftur.“

Face­book gagn­rýnt fyrir af­hendingu gagnanna

Face­book hefur sætt gagn­rýni fyrir að hafa af­hent skjölin, enda hafi þau leitt til þess að móðirin hafi verið kærð fyrir að að­stoða við ó­lög­legt þungunar­rof. Myllu­merkið #deleteFace­book hefur skotist upp á lista yfir vin­sælustu myllu­merkjum á sam­fé­lags­miðlum.

Fyrr í sumar höfðu mæðgurnar verið kærðar fyrir að hylma yfir líki og yfir­gefa það, á­samt tveimur vægum brotum, að leyna dauða annarrar mann­eskju og að ljúga í skýrslu­töku. Það var ekki fyrr en mánuði síðar, eftir að rann­sak­endur fengu skila­boðin frá Face­book í hendurnar, sem móðirin var á­kærð fyrir að að­stoða við ó­lög­legt þungunar­rof.

Þegar fyrsta skýrslan var tekin af mæðgunum í apríl sögð þær að dóttirin hefði fætt and­vana barn og því hafi þær sett fóstrið í poka, keyrt í tölu­verða fjar­lægð frá heimili þeirra og jarðað það með að­stoð tuttugu og tveggja ára manns.

Í dóm­skjölum kemur fram að fóstrið hafi verið með bruna­sár þegar það var krufið, maðurinn sem að­stoðaði mæðgurnar hafi síðan stað­fest að þær hafi brennt það áður en þær jörðuðu það.

Þrengt að réttindum kvenna

Lands­sam­band fyrir þungaðar konur í Banda­ríkjunum, sem eru fylgjandi að leyfa skuli þungunar­rof, segir 1.331 til­vik þar sem konur hafa verið dæmdar fyrir glæpi tengda þungun þeirra, þungunar­rof þar á meðal.

Stjórn­völd í Nebraska reyndu að banna öll þungunar­rof eftir að dómurinn Roe v Wade var dæmdur ó­gildur og opnaði fyrir ríkjum að á­kveða lög­gjöf varðandi þungunar­rof upp á sínar eigin spýtur. Stjórn­völdum mis­tókst að breyta lögunum og því standa lögin frá 2010 um bann á þungunar­rofi eftir tuttugustu viku.