Gangbrautarvarsla var á tveimur gatnamótum við Hringbraut í morgun. Ekið var á stúlku á gatnamótum Hringbrautar og Meistaravalla í gær. Slysið vakti mikla reiði meðal Vesturbæinga og segjast foreldrar í hverfinu hafa í­trekað kallað eftir göngu­verði við götuna en aldrei haft erindi sem erfiði. 

Ákváðu foreldrar í Vesturbænum í kjölfarið standa sem gönguverðir við Hringbraut í mótmælaskyni. Síðdegis í gær sendi Reykjavíkurborg frá sér fréttatilkynningu þar sem fram kom að til stæði að taka upp gangbrautarvörslu við Hringbraut.

Jóhann Tryggvason, faðir úr Vesturbænum, stóð vaktina við götuna í morgun, nánar tiltekið á gatnamótum Hringbrautar og Framnesvegs. Þar fylgdi hann börnum á leið í Vesturbæjarskóla yfir umferðargötuna. 

Sjá einnig: Íbúar æfir yfir að­gerða­leysi eftir slysið við Hring­braut

Á gatnamótum Meistaravalla og Hringbrautar, þar sem slysið varð í gærmorgun, stóð svo skólaliði frá Reykjavíkurborg vaktina. Jóhann segir í samtali við Fréttablaðið að gangbrautarvarslan hafi gengið vel í morgun, en ekki sé nóg að skólaliði standi einungis vaktina á einum gatnamótum. 

Sjá einnig: For­eldrar í Vestur­bæ gerast göngu­verðir í mót­mæla­skyni

„Skólinn leggur bara til einn gangbrautarvörð, en það eru náttúrulega fleiri leiðir yfir Hringbrautina en þarna á þessum einu ljósum,“ segir Jóhannes. Telur hann að borgin geti vel gert betur með því að vera með gangbrautarvörslu á fleiri gatnamótum í hverfinu. 

Sjálfur var hann vígbúinn gulu vesti og segist hafa fylgt nokkrum fjölda barna yfir götuna á gatnamótum við Framnesveg.