Göngu­deild SÁÁ á Akur­eyri verður lokað um ó­á­kveðinn tíma frá og með 1. mars næst­komandi. Ekki hafa náðst samningar á milli sam­takanna og Sjúkra­trygginga Ís­lands (SÍ) en starf­semin var þó tryggð á fjár­lögum í nóvember síðast­liðinn. 

Þetta stað­festir Hörður Oddfríðarson, dag­skrár­stjóri deildarinnar, í sam­tali við Frétta­blaðið. Hann hafi fengið fyrir­mæli frá fram­kvæmda­stjórn SÁÁ og segir að sam­tökin hafi ekki efni að halda úti starf­seminni í eigin reikningi. Að öðru leyti gæti hann ekki tjáð sig um stöðu samninga við SÍ og vísaði á Arn­þór Jóns­son, for­mann SÁÁ, sem ekki náðist í við vinnslu fréttarinnar. 

Hilda Jana Gísla­dóttir, bæjar­full­trúi Sam­fylkingarinnar á Akur­eyri, sagði í sam­tali við Frétta­blaðið að málið væri „ömur­legt“ í alla staði. „Ég er svo svekkt, sár og reið yfir þessu máli að ég gæti hrein­lega öskrað. Í al­vöru hvernig getur þetta gerst?“ skrifar hún á Face­book.

Tilkynnt var um lokun deildarinnar í janúar í fyrra en ekkert varð úr því. Framtíð starfsemi deildarinnar var þó í lausu lofti allt síðasta ár, allt þar til hún var tryggð áfram á fjárlögum ársins 2019. Fól velferðarráðuneytið SÍ að ganga frá samningum um göngudeildarþjónustu á vegum SÁÁ fyrir norðan.