Facebook greindi frá því í dag að gögnum 87 milljóna notenda þeirra hafi líklega verið lekið til ráðgjafafyrirtækisins Cambridge Analytica, ekki 50 milljóna notenda, eins og fyrr var talið. 

Flestir þessara notenda eru búsettir í Bandaríkjunum. Á eftir því var um að ræða notendur meðal annars, búsetta í Filippseyjum, Indónesíu og Bretlandi.

Mike Schroepfer, sem er yfirmaður tæknideildar Facebook, greindi frá þessu í bloggpósti fyrr í dag. Hann segir þó ekkert þar um hvernig Facebook hafi komist að því að um fleiri væri að ræða en upphaflega var talið. Þar segir enn fremur að Facebook vinni nú að því að takmarka deilingu gagna til þriðja aðila. 

Forstjóri Facebook, Mark Zuckerberg, mun mæta fyrir orku- og viðskiptanefnd fulltrúadeildar bandaríkjaþings í næstu viku. Þar mun hann ræða meinta misnotkun  Cambridge Analytica á gögnum þeirra 87 milljóna notenda sem var lekið til þeirra. 

Cambridge Analytica sérhæfir sig í sálfræðilegri greiningu á kjósendum og stýrði kosningabaráttu Donald Trumps Bandaríkjaforseta árið 2016. Fyrirtækið er talið hafa brotið gegn lögum með meintri misnotkun greiningarfyrirtæksins á gögnum tuga milljóna Facebook notenda. Greint var frá á Reuters.

Hlutabréf Facebook féllu um 1,4 prósent í dag. Þau hafa fallið um meir en 16 prósent frá því upp komst um gagnalekann.

Dagblöðin The New York Times og London Observer unnu að rannsókn á gagnalekann og frá þeim kom upphaflega ágiskun um að um væri að ræða gögn 50 milljón notenda.