Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að ríkisstjórnin hafi ekki fundað í dag um um meira fjármagn til Landspítalans í fjárlögunum. Það hefur legið fyrir frá því að fjárlögin voru lögð fram að spítalinn hefur verið með uppsafnaðan halla.

„Eins og heilbrigðisráðherra hefur gert grein fyrir hefur fjármagn til spítalans verið aukið verulega til rekstrar spítalans á þessu kjörtímabili, fyrir utan ýmsar sértækar aðgerðir vegna COVID og fjárfestinga sem felast í nýrri byggingu. Það hefur verið mjög vel að verki staðið þar en síðan er það bara úrlausnarefni hvernig á að vinna á stöðunni á þessum uppsafnaða halla,“ segir Katrín í samtali við Fréttablaðið.

Aðspurð hvort spenna sé innan ríkisstjórnarinnar vegna stöðu Landspítalans í tengslum við fjárlög segir Katrín svo ekki vera. „Það er spenna út af ýmsu en ekki út af því.“

Góð stemning á ríkisstjórnarfundi

Fréttablaðið greindi frá því fyrr í dag að mikil togstreita er sögð vera milli ráðuneyta, einkum milli heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra. Svandís Svavarsdóttir er sögð vilja fá tugi milljarða til viðbótar í heilbrigðismálin en Bjarni Benediktsson tekur það ekki í mál.

Auk togstreitu um síðustu fjárlög kjörtímabilsins hafa ráðherrar áhyggjur af málastöðunni og óttast að ná ekki forgangsmálum sínum gegnum ríkisstjórn og þingflokka á þessum síðasta þingvetri. Veldur þetta spennu milli ráðherra og þingliðs stjórnarmeirihlutans.

Aðspurð um þingið segir Katrín: „Ég er nokkuð viss um að við verðum lengur en starfsáætlun kveður á um vegna þess að við erum að sjá fjárlögin dragast vegna stöðunnar.“

Segir hún stemninguna á ríkisstjórnarfundi í dag hafa verið góða. „Já, ljómandi góð stemning. Við vorum að afgreiða ofboðslega mörg frumvörp af því að það er síðasti dagur fyrir framlagningu á mánudag.“

Fjölmiðlafrumvarp afgreitt úr ríkisstjórn

Meðal mála sem afgreidd voru úr ríkisstjórn í morgun eru frumvarp menntamálamálaráðherra um stuðning við einkarekna fjölmiðla, frumvarp umhverfisráðherra um hálendisþjóðgarð, frumvarp um sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um úthlutun tollkvóta og frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á lögreglulögum. Gera má ráð fyrir að frumvörpin verði lögð fram í dag eða á mánudag.

Þingfundur hefur verið boðaður síðdegis í dag vegna frumvarps dómsmálaráðherra til laga um verkfall flugvirkja. Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis, segist í samtali við Fréttablaðið, búast við að þingfundur hefjist klukkan 15. 30.