„Það er mikið af fiski á svæðinu,“ segir Árni Kristinn Skúlason hjá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur um stöðu mála í Elliðaánum.

Veiðin í Elliðaánum hófst að venju 20. júní og hefur farið vel af stað. Út júní veiddust 86 laxar sem er næstum því þrefalt meira en á sama tíma í fyrra þegar aðeins 32 fiskar veiddust. Í gær voru ríflega 170 laxar komnir upp fyrir teljarann sem er neðan við gömlu rafstöðina í Elliðaárdal. „Laxinn var seinna á ferðinni í fyrra,“ bendir Árni á.

Að sögn Árna hefur veiðst ágætlega á svæðum Stangaveiðifélagsins það sem af er sumri miðað við hvernig veiðin hefur farið af stað almennt.