„Það hefur ræst ótrúlega vel úr þessu,“ segir Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri hjá Hafrannsóknastofnun, um aðsókn á laxveiðitímabilinu sem er að hefjast. Kórónaveirufaraldurinn hafi dempað aðsókn útlendinga til íslenskra laxveiðimiða nokkuð á síðasta ári en hún sé að taka við sér fljótt og örugglega. Þá séu sjálfar veiðihorfurnar góðar: „Fjöldi smálaxa gefur ákveðnar vísbendingar um fjölda stórlaxa næsta ár.“
Nú til dags er mun stærra hlutfalli stórlaxa sem veiðast sleppt en tíðkaðist áður, að sögn Guðna. Skýrist þetta meðal annars af fækkun stórlaxa frá níunda áratugnum til ársins 2000 sem flest veiðifélög féllust á að sporna við með því að sleppa löxum yfir tiltekinni stærð. „Það sem við erum að sjá í tölunum núna er að þeim fer aftur fjölgandi. Þannig að þær aðferðir hafa verið að skila sér.“
Guðni á von á að veiðin haldi áfram að batna 2021 eftir að hún náði sér á strik eftir lægð 2019. „Hversu hátt við förum er erfitt að segja þar sem nú er kominn meiri óstöðugleiki en við sjáum í gagnaröðinni sem liggur fyrir frá því um 1950.“
Guðni býst jafnframt við frekari vexti hnúðlaxastofnsins, sem var fyrst veiddur árið 1960 eftir að hann var fluttur frá Kyrrahafsströnd Rússlands til Hvítahafs og Kólaskaga. „Það var alltaf einn og einn fiskur að koma hér sem flækingur til ársins 2015 en þá varð veruleg aukning.“