Rafjeppinn verður í grunninn mjög svipaður pallbílnum en er byggður á styttri útgáfu undirvagnsins sem notar rafhlöðuna sem burðarbita. Bíllinn er 508 mm styttri en pallbíllinn og þar af leiðandi er hjólhafið 220 mm styttra. Fyrir vikið verður jeppinn betri í akstri og viðráðanlegri í torfærum að sögn GMC. Að- og fráfallshorn hans er líka betra eða 49 gráður og undirvagnshorn hans er 34,4 gráður svo að hann mun geta ráðið við ansi gróft undirlag.

Sami tæknibúnaður verður í Hummerjeppanum og verða 22 tommu felgur staðalbúnaður eins og í pallbílnum. Loftpúðafjöðrun mun geta lyft bílnum um allt að 152 mm og staðalbúnaður verður fjórhjólastýring og Crabwalk-skriðgír sem leyfir bílnum að skríða til hliðanna eins og krabbi. Þar sem jeppinn er aðeins minni en pallbíllinn mun hann nota aðeins aflminni rafmótora svo að heildarafköst verða 819 hestöfl í stað 1.000. Togið verður þó það sama og í pallbílnum svo að upptakið verður allgott eða 3,5 sekúndur í hundraðið. Rafhlaðan verður einu númeri minni svo að drægið minnkar um 80 km og verður 480 kílómetrar. Hann mun nota sama 800 volta rafkerfi og því geta hlaðið 160 km af drægi á 10 mínútum. Ekki er talið líklegt að hann verði boðinn í Evrópu, allavega til að byrja með.