Það er misjafnt gengið á bandarísku bílaframleiðendunum, en bæði GM og Ford hafa á undanförnum vikum greint frá fyrirhuguðum lokunum á verksmiðjum sínum vegna dræmrar sölu. Allt annað hljóð er í þriðja bílarisanum vestanhafs, en Fiat Chrysler greindi frá því í gær að fyrirtækið hyggist enduropna verksmiðju í Detroit sem hefur verið lokuð frá árinu 2012. Þar ætlar Fiat Chrysler að smíða þriggja sætaraða Jeep jeppa, eða Jeep Grand Cherokee af lengri gerðinni. Hann á að koma á markað árið 2020 og svara þeirri miklu þörf sem nú er í Bandaríkjunum fyrir stærri gerðir jeppa með þremur sætaröðum. 

Þessi frétt frá Fiat Chrysler ætti að gleðja Donald Trump sem lagt hefur áherslu á það að bandarísku bílaframleiðendurnir búi til eða viðhaldi störfum í Bandaríkjunum. Það er þó auðveldara fyrir Fiat Chrysler sem seldi 17% fleiri bíla í nóvember í ár en í fyrra og gengur afskaplega vel þessa dagana. Annað verður sagt um Ford og GM, þar sem sala beggja fyrirtækjanna minnkar stöðugt. GM stefnir t.d. að því að loka einum fimm verksmiðjum sínum og eru fjórar þeirra í Bandaríkjunum. Verksmiðjur GM í Bandaríkjunum eru nú reknar á 76% afköstum á meðan verksmiðjur Fiat Chrysler eru reknar á 90% afköstum.