Glúmur Baldvinsson mun skipa oddvitasæti fyrir Frjálslynda lýðræðisflokkinn (X-O) í komandi alþingiskosningum. Hann mun annaðhvort taka sætið í Reykjavíkurkjördæmi suður eða norður.
Glúmur er með BA gráðu í stjórnmálafræði og hagfræði frá Háskóla Íslands, MSc gráðu í alþjóðasamskiptum og evrópufræðum frá London School of Economics og MA gráðu í alþjóðasamskiptum og alþjóðaviðskiptum frá University of Miami.
Glúmur hefur starfað hjá Fríverslunarsamtökum Evrópu, EFTA, Sameinuðu þjóðunum, International Relief and Development í Washington, ICEAID, Þróunarsamvinnustofnun Íslands, Íslensku friðargæslunni, Tryggingastofnun ríkisins og sem fréttamaður á RÚV og Stöð 2 auk þess að hafa starfað sem leiðsögumaður og sjómaður á Íslandi.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Frjálslynda lýðræðisflokknum. Stofnandi flokksins er Guðmundur Franklín Jónsson, viðskipta- og hagfræðingur og fyrrverandi forsetaframbjóðandi en flokkurinn hyggst bjóða fram lista í öllum kjördæmum í Alþingiskosningunum í haust. Í tilkynningu frá flokknum í byrjun árs sagðist flokkurinn ætla að berjast fyrir fullveldi landsins, beinu lýðræði, auðlindum í eigu þjóðar og gegn spillingu.

„Þegar ég var ungur maður var ég oft spurður hvort ég ætlaði ekki í pólitík eins og afi og pabbi. Ég svaraði neitandi. Skyldi ég í pólitík væri það ekki út af ætterni mínu heldur einvörðungu eftir að ég hefði öðlast einhverja lífsreynslu og ástríðu fyrir því sem betur mætti fara í samfélagi okkar. Ég átti vini sem dýrkuðu ákveðinn stjórnmálaflokk, fóru í lögfræði og beint í framboð án þess að vita nokkuð um hvað veröldin snerist og án skilnings á þjóðinni sem pólitíkusinn á að þjóna. Nú er ég eldri og finn mig knúinn til að gera eitthvað í málunum og leggja mitt af mörkum þegar staðan í þessu samfélagi er þannig að fjölskyldur teljandi á fingrum annarrar handar eiga landið til sjávar og sveita. Einu sinni var talað um Ísland sem stéttlaust land. Það var firra þá en enn meiri firra nú og það sem verra er er að stærstu fjölmiðlar landsins eru í eigu sömu fjölskyldna og eiga landið. Ísland er eitt spilltasta ríki í norðri jarðar. Hvernig má slíkt vera í svo smáu samfélagi sem ætti í raun að vera fyrirmynd annarra samfélaga um jöfnuð og velferð? Ég hef val. Að sitja hjá og röfla á samfélagsmiðlum eða sigla úr vari og taka þátt og láta til mín taka.Ég vel síðari kostinn," segir Glúmur í framboðstilkynningunni.