Glúmur Bald­vins­son mun skipa odd­vita­sæti fyrir Frjáls­lynda lýð­ræðis­flokkinn (X-O) í komandi al­þingis­kosningum. Hann mun annað­hvort taka sætið í Reykja­víkurkjör­dæmi suður eða norður.

Glúmur er með BA gráðu í stjórn­mála­fræði og hag­fræði frá Há­skóla Ís­lands, MSc gráðu í al­þjóða­sam­skiptum og evrópu­fræðum frá London School of Economics og MA gráðu í al­þjóða­sam­skiptum og al­þjóða­við­skiptum frá Uni­versity of Miami.

Glúmur hefur starfað hjá Frí­verslunar­sam­tökum Evrópu, EFTA, Sam­einuðu þjóðunum, International Relief and De­velop­ment í Was­hington, ICEA­ID, Þróunar­sam­vinnu­stofnun Ís­lands, Ís­lensku friðar­gæslunni, Trygginga­stofnun ríkisins og sem frétta­maður á RÚV og Stöð 2 auk þess að hafa starfað sem leið­sögu­maður og sjó­maður á Ís­landi.

Þetta kemur fram í til­kynningu frá Frjáls­lynda lýð­ræðis­flokknum. Stofnandi flokksins er Guð­mundur Frank­lín Jóns­son, við­skipta- og hag­fræðingur og fyrr­verandi for­seta­fram­bjóðandi en flokkurinn hyggst bjóða fram lista í öllum kjör­dæmum í Al­þingis­kosningunum í haust. Í til­kynningu frá flokknum í byrjun árs sagðist flokkurinn ætla að berjast fyrir full­veldi landsins, beinu lýð­ræði, auð­lindum í eigu þjóðar og gegn spillingu. 

Guðmundur Franklín Jónsson bauð sig fram í forsetakosningunum í júní síðastliðnum en er nú í þingframboði.

„Þegar ég var ungur maður var ég oft spurður hvort ég ætlaði ekki í pólitík eins og afi og pabbi. Ég svaraði neitandi. Skyldi ég í pólitík væri það ekki út af ætt­erni mínu heldur ein­vörðungu eftir að ég hefði öðlast ein­hverja lífs­reynslu og ást­ríðu fyrir því sem betur mætti fara í sam­fé­lagi okkar. Ég átti vini sem dýrkuðu á­kveðinn stjórn­mála­flokk, fóru í lög­fræði og beint í fram­boð án þess að vita nokkuð um hvað ver­öldin snerist og án skilnings á þjóðinni sem pólitíkusinn á að þjóna. Nú er ég eldri og finn mig knúinn til að gera eitt­hvað í málunum og leggja mitt af mörkum þegar staðan í þessu sam­fé­lagi er þannig að fjöl­skyldur teljandi á fingrum annarrar handar eiga landið til sjávar og sveita. Einu sinni var talað um Ís­land sem stétt­laust land. Það var firra þá en enn meiri firra nú og það sem verra er er að stærstu fjöl­miðlar landsins eru í eigu sömu fjöl­skyldna og eiga landið. Ís­land er eitt spilltasta ríki í norðri jarðar. Hvernig má slíkt vera í svo smáu sam­fé­lagi sem ætti í raun að vera fyrir­mynd annarra sam­fé­laga um jöfnuð og vel­ferð? Ég hef val. Að sitja hjá og röfla á sam­fé­lags­miðlum eða sigla úr vari og taka þátt og láta til mín taka.Ég vel síðari kostinn," segir Glúmur í fram­boð­stil­kynningunni.