Flugfélagið Air Canada hefur staðfest að kona nokkur hafi fyrr í mánuðinum verið skilin ein eftir um borð í flugvél eftir að hún hafði sofnað í fluginu. Konan, Tiffani Adams, vaknaði þann 9. júní alein í flugvél sem hafði verið lagt á flugvellinum í Toronto. BBC greinir frá.

Tiffani sofnaði í flugi sínu frá Quebec til Toronto í Kanada og vaknaði nokkrum klukkustundum síðar í almyrkvaðri flugvélinni. Hún hefur lýst upplifuninni sem „skelfilegri reynslu“ og sagt að síðan atvikið átti sér stað hafi hún fengið síendurteknar martraðir.

Tiffani náði þá að hringja í vinkonu sína og láta hana vita hvar hún væri en sími hennar varð batteríslaus eftir að símtalið hafði staðið í um eina mínútu. Hún gat þá ekki hlaðið símann því að búið var að slökkva á flugvélinni.

Vinkona hennar náði þá sambandi við flugvöllinn og lét vita af því sem gerst hafði. Á meðan fann Tiffani vasaljós í flugstjórnarklefanum og reyndi að vekja athygli á sér með því.

Að lokum fannst Adams eftir að flugvallarstarfsmaður sem var að keyra farangur á vellinum tók eftir henni. Hún segir þá flugfélagið hafa boðið henni upp á far með eðalvagni og gistingu á hóteli en hún hafi afþakkað það og viljað komast heim til sín sem fyrst. Þá er ekki enn vitað hvernig Tiffani getur hafa gleymst í vélinni og er málið til rannsóknar hjá flugfélaginu.