Farþegaflugvél á leið frá Jeddah í Sádi-Arabíu til Malasíu fékk leyfi frá flugumferðarstjórn til að snúa aftur til Jeddah eftir að farþegi tilkynnti flugfreyjum að hún hefði gleymt kornabarni sínu á flugvellinum. Flugvélin var komin nokkuð á veg þegar farþegin greindi flugfreyjum vélarinnar frá mistökunum og neitaði að halda áfram ferðinni án ungabarnsins. The Guardian greinir frá en myndskeið þar sem heyra má samskipti flugmanns vélarinnar við flugumferðarstjórn í Jeddah hefur vakið mikla athygli. Þar má heyra flugmanninn óska eftir að fá að snúa við vélinni til að sækja barnið.

„Megi Guð vera með okkur, megum við koma til baka?“ Spurði flugmaðurinn. Þá má heyra flugmanninn ítreka við furðulostinna flugumferðarstjórn: „Ég sagði ykkur, farþegi gleymdi ungabarni sínu á flugvellinum og hún neitar að halda áfram.“

Flugumferðarstjórn í Jeddah var nokkuð hikandi í fyrstu, enda beiðnin óvenjuleg, en að lokum að vélin fengi að snúa til baka svo móðirin gæti sótt barn sitt. Nokkuð óvenjulegt er að flugvélar snúi við nema upp komi alvarleg veikindi eða tæknileg vandræði. 

Það hefur þó komið fyrir áður. Árið 2013 sneri vél American Airlines til að mynda við á leið sinni frá Los Angeles til New York vegna óstýriláts farþega sem neitaði að hætta að syngja lagið I Will Always Love You með Whitney Houston.