Mikill erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt samkvæmt dagbók lögreglunnar.

Fjöldi mála voru 68 talsins og voru af ýmsum toga.

Nokkuð var um þjófnað, en lögreglu barst tilkynning um aðila sem hafði stolið peningakassa í hverfi 105. Sá var handtekinn skömmu síðar og vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.

Tveir voru handteknir grunaðir um þjófnað á reiðhjólum og færðir á lögreglustöð.

Enn önnur tilkynning barst vegna þjófnaðar á gaskútum. Þá hafði lögregla afskipti af tveimur aðilum með fullar innkaupakerrur af dósum. Í ljós kom að búið var að brjóta læsingu á dósagám til styrktar Skátunum og tæma hann. Innkaupakerrurnar og dósirnar voru haldlagðar af lögreglu og aðilarnir lausir að lokinni skýrslutöku.

Þá barst tilkynning vegna vatnsleka af þriðju hæð í fjölbýli, en aðili hafði verið að láta renna í bað um gleymt sér svo leka fór úr baðkarinu. Slökkvilið kom og á vettvang og hreinsaði íbúðina.

Tvær tilkynningar bárust vegna elds, annars vegar í ruslatunnu og hins vegar í gróðri við Rauðavatn. Í báðum tilfellum kom slökkvilið á vettvang og slökkti eldinn.

Nokkrir ökumenn voru stöðvaðir í umferðinni fyrir meðal annars hraðakstur og afstungu.