„Hefur það því miður allt of oft gerst að rútan gleymir börnunum, þau þurft að bíða úti í lengri tíma og mörg misst af íþrótta- og tómstundaæfingum af þessum sökum,“ segir í bréfi stjórnar foreldrafélags Helgafellsskóla til Mosfellsbæjar þar sem lýst er yfir áhyggjum af því að áætlað íþróttahús við skólann sé ekki á fjárhagsáætlun næstu ára.

Foreldrafélagið telur að það skapist meira öryggi fyrir börnin ef rútuferðum fækki enda geti þær verið íþyngjandi. Þá þyki það skjóta skökku við að verið sé að aka börnunum fram og til baka þegar staða loftslagsmála sé eins og hún sé.

Frá upphafi skólans hafa börn í 1. til 4. bekk verið í útikennslu í íþróttum sem félagið hrósar sem frábærri skammtímalausn. „En að þessir krakkar fái ekki að njóta aðgengis að íþróttahúsi næstu ár finnst okkur alveg fráleitt.“

Börn í 5. til 10. bekk eru sögð gjalda hressilega fyrir það með því að vera talsvert lengur í skólanum.

„Við höfum verið þolinmóð og sýnt þessu skilning, en að þetta verði fyrirkomulagið til lengri tíma finnst okkur ekki boðlegt. Það er lýðheilsumál að börnin okkar fái að setjast niður og borða í ró og næði,“ segir í bréfinu en eini lausi tíminn fyrir börnin er í hádeginu. „Þetta hefur áhrif á þessa krakka þar sem mörg þeirra ná varla að borða hádegismat eða þurfa að henda honum í sig á handahlaupum til þess að ná í íþróttatímann sinn.“

Er því skorað á bæjaryfirvöld að endurskoða þá ákvörðun að slá eigi á frest að hefja framkvæmdir að íþróttahúsi við Helgafellsskóla