Fjöldi kvenna hefur tjáð sig á samfélagsmiðlum undanfarna daga um afleiðingar þess að segja frá kynferðisofbeldi. Prófessor í félagsfræði segir sérstakt að taka afstöðu til mála sem fólk viti ekkert um.

Síðastliðinn sólarhring hefur fjöldi kvenna stigið fram og opnað sig um kynferðisofbeldi sem þær hafa orðið fyrir og hvernig afleiðingar þess að segja frá því hafi verið. Þetta kemur til vegna samfélagsumræðu um Sölva Tryggvason og konurnar sem hafa kært hann til lögreglu vegna ofbeldis.

Umræðan hefur að miklu leyti farið fram á samfélagsmiðlum og lýsa margir því að viðbrögð almennings við ásökunum á hendur Sölva séu lýsandi fyrir ástandið í samfélaginu, sem einkennist að þeirra mati af gerendameðvirkni. Það hefur vakið athygli margra Twitter-notenda að margir virðist finna meira til með Sölva en konunum sem hafa lagt fram kæru á hendur honum.

Ingólfur Gíslason, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, segir það ekki óalgengt að umræða sem þessi skapist þegar slík mál komi upp, sér í lagi þegar þekktir einstaklingar eigi í hlut. „Þegar um þekktan einstakling er að ræða gerist það kannski sérstaklega að fólk taki afstöðu með eða á móti einfaldlega vegna þess að þannig komist það sjálft í sviðsljósið,“ segir Ingólfur en leggur sérstaka áherslu á að hann kjósi að tjá sig ekki um mál Sölva sérstaklega.

„Það er mjög sérstök þörf að vilja taka afstöðu til einhvers sem maður veit ekkert um og oft verður til í samfélaginu gífurleg hystería í svona aðstæðum,“ segir Ingólfur. „Sem dæmi má nefna málið um hundinn Lúkas,“ segir Ingólfur og vísar þar í mál frá árinu 2007 þegar hundurinn Lúkas hvarf á Akureyri. Upp spratt saga um að hundinum hefði verið komið fyrir í íþróttatösku og hann drepinn. Hann fannst lifandi nokkrum vikum síðar.

Ungur maður var grunaður um verknaðinn, hann var ofsóttur og honum voru sendar morðhótanir. Þá voru haldnar kertafleytingar og minningarathafnir fyrir Lúkas, sem þó var á lífi. Þetta segir Ingólfur dæmi um það þegar fólk tekur afstöðu til mála sem það hafi ekki nægar upplýsingar um. „Þarna er fólk bara að gefa frá sér gagnrýna hugsun.“

Kertavaka til minningar um hundinn Lúkas sem fannst svo á lífi.
Rósa Jóhannsdóttir

Umræðan síðustu daga hefur komið af stað nýrri byltingu reynslusagna með myllumerkinu #MeToo þar sem konur lýsa reynslu sinni af því að segja frá kynferðisofbeldi. Algengustu viðbrögðin virðast vera vantrú, gaslýsing og að gert sé lítið úr reynslu kvennanna.

Steinunn Gyðu og Guðjónsdóttir.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

#MeToo-byltingin var áberandi í samfélaginu upp úr árinu 2017. Ingólfur segist telja líklegt að sú byltingu, ásamt Free the nipple og Druslugöngunni hafi haft varanleg samfélagsleg áhrif. Þau sjáist meðal annars á því hversu fljótt umræðan varð hávær síðustu daga, áður hefði verið líklegra að henni hefði verið „sópað undir teppið“.

Ingólfur segir rannsóknir benda til þess að eftir #MeToo séu konur líklegri til að segja frá verði þær fyrir ofbeldi. „Það er óskaplega bjartsýnt að reikna með því að svona bylting losi okkur við þetta en dropinn holar steininn,“ segir hann.

„Konur segja frekar frá, þær sætta sig síður við og eru ólíklegri til að festast í ofbeldissambandi. Breytingin hvílir í því að allar þessar hreyfingar hafa hvatt konur til að tala og segja frá, og sjá að þær séu ekki einar,“ bætir Ingólfur við.

Steinunn Gyðu og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta, segir umræðu líkt og þá sem skapast hefur síðustu daga geta verið afar erfiða fyrir þolendur ofbeldis. „Það að heyra þessa orðræðu úti um allt getur orðið til þess að þolendur endurupplifi það ofbeldi sem þau urðu fyrir.“

Þá segir Steinunn einnig að á samfélagsmiðlum hafi verið uppi ósanngjörn krafa til kvenna sem kært hafi ofbeldi um að koma fram undir nafni. „Það er óraunhæf krafa að brotaþolar eigi að opinbera sig líkt og þær hafi gert eitthvað rangt.“