Norska lögreglan rannsakar nú hvort skotárás sem átti sér stað í miðborg Oslóar í nótt þar sem tveir létust og hátt í tuttugu manns særðust hafi verið hryðjuverkaárás.

Árásarmaðurinn var handtekinn á vettvangi í nótt skammt frá skemmtistaðnum London Pub í miðborg Oslóar þar sem skotum var hleypt af en staðurinn er vinsæll samkomustaður hinsegin fólks.

Maðurinn er sagður vera 42 ára norskur ríkisborgari af írönskum uppruna.

Á blaðamannafundi í morgun greindi talsmaður norsku lögreglunnar frá því að ekkert fórnarlambanna væri nú í lífshættu en tíu manns eru alvarlega slasaðir og ellefu minna slasaðir.

Fréttablaðið/EPA-EFE

Gleðigöngunni aflýst

Gleðiganga Oslóar, Oslo Pride, átti að fara fram í dag en hefur nú verið aflýst vegna skotárásarinnar að ráðum lögreglu.

Í tilkynningu sem skipuleggjendur gleðigöngunnar sendu frá sér á Facebook í morgun kemur fram að öll þau sem ætluðu að fjölmenna í gönguna séu beðin um að halda sig heima og fara vel með sig.