Henný Hinz, nýr aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar, sagði upp sæti sínu í framkvæmdarstjórn Samfylkingarinnar í morgun, rétt áður en tilkynnt var um ráðningu hennar til ríkisstjórnarinnar. Þetta staðfestir Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir formaður framkvæmdarstjórnar flokksins.

„Þetta er bara gleðiefni“

Henný var kjörin í framkvæmdarstjórn flokksins á síðasta landsfundi 2018 en sex fulltrúar eru kjörnir í framkvæmdarstjórn flokksins á þeim vettvangi og fékk Henný flest atkvæði landsfundarfulltrúa til embættisins.

Samfylkingin er í stjórnarandstöðu á þingi og það vakti athygli í morgun þegar tilkynnt var um ráðningu Hennýjar til ríkisstjórnarinnar.

„Við erum bara mjög glöð að Samfylkingarfólk með göfugar hugsjónir ráðist í góð störf,“ segir Inga Björk og bætir við: „Þetta er bara gleðiefni.“

„Ég fer þarna bara inn á faglegum forsendum,“ segir Henný sjálf en hún greint var frá því fyrir viku síðan að hún væri á förum frá ASÍ eftir 16 ára starf hjá sambandinu en hún hefur gegnt starfi aðalhagfræðings ASÍ undanfarin ár.

Samkvæmt tilkynningu frá stjórnarráðinu mun Henný vinna að vinnumarkaðsmálum, stefnumótun um hagræn viðbrögð vegna loftslagsvárinnar og öðrum efnahagslegum viðfangsefnum.

Starfið óttengt stjórnmálaþáttökunni

Staðan var ekki auglýst en um er að ræða eitt af stöðugildum aðstoðarmanna sem forsætisráðherra getur ráðið í, án auglýsingar.

Henný segir engan skugga hafa borið á samband sitt við félagana í Samfylkingunni og þessa breytingu á högum sínum ótengda þátttöku sinni í stjórnmálastarfi Samfylkingarinnar.