Athafnamaðurinn Sverrir Einar Eiríksson, eigandi Nýju vínbúðarinnar, hyggst opna nýtt „glamping“- svæði í Þrastalundi í ágúst.

„Glamping“-útilega, sem má þýða á íslensku sem „glæsi-legu,“ á rætur sínar að rekja til hefða meðal ensku yfirstéttarinnar, sem hafa fengið nútímalegri búning í aldanna rás. Um er að ræða lúxusgistingu í tjaldi sem er stærra en hefðbundið útilegu­tjald, og gjarnan eru aukin þægindi og aðbúnaður í tjaldinu, sem færir gistinguna upp á næsta stig.

„Ég er að undirbúa tjaldsvæði í Þrastarlundi og er á lokasprettinum að koma því í gang. Svo keypti ég tvo hóteltrukka, hrikalega flotta, sem ég er að standsetja og setja á svæðið,“ segir hann. „Og svo er að setja upp þessi glamping-tjöld. Fyrst þrjú en ég stefni á þrjátíu.“

Að sögn Sverris koma tjöldin frá pólsk-þýsku fyrirtæki, og segir hann hönnunina fallega og tjöldin níðsterk, og þoli þau íslenska veturinn vel.

Sverrir var í apríl dæmdur í 10 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir skattsvik í tengslum við rekstur þriggja einkahlutafélaga og var eitt þeirra félaga Sogið veitingar ehf. Sverrir var dæmdur fyrir meiriháttar skattalagabrot sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður félagsins, með því að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda og staðgreiðsluskilagreinum, og nam upphæðin rúmlega níu milljónum króna.

Aðspurður um hvernig rekstrinum í Þrastalundi sé háttað með hliðsjón af dómsmálinu, svarar hann. „Rétt er að árétta að dómur sem féll í maí hefur ekkert að gera með núverandi rekstur í Þrastaskógi. Mér þykir afar leitt ef mál vegna rekstrar sem ekki gekk upp af ýmsum orsökum í erfiðu rekstrarumhverfi veitingarekstrar fyrir nokkrum árum síðan, varpi skugga á uppbyggingu og nýjan rekstur á svæðinu,“ segir hann.

„Ég hef í nærri aldarfjórðung stundað ýmiss konar viðskipti, þó mest fasteignaviðskipti hér á landi og í Bretlandi. Þá hef ég komið að kaupum á gulli og demöntum, stundað lánastarfsemi, veitinga- og gistihúsarekstur, rekið starfsmannaleigu og fleira. Flest hefur gengið vel,“ segir Sverrir.

„Skattamál út af fyrri veitingarekstri tengist ekki á nokkurn hátt uppbyggingu á glamping í Þrastalundi eða núverandi rekstraraðilum þar.“