Margir hafa lagt á sig að baka, elda og skreyta til að gera blaðið sem allra glæsilegast. Meðal þeirra er söngkonan Jóhanna Guðrún sem segist elska jólin. „Ég kynntist fallegum jólahefðum strax í æsku og held að svo sé hjá mörgum sem eru mikil jólabörn í sér,“ segir hún í viðtalinu.

Í Jólablaðinu eru sérlega glæsilegar jólatertur, humarsúpa sem hefur slegið í gegn, andabringur í upphæðum, fylltur lambahryggur, kalkúnabringur og jólaís svo eitthvað sé nefnt. Allt eru þetta afar girnilegar uppskriftir sem margir eiga án efa eftir að prófa. Þá eru fallega skreytt heimili og sumarbústaður þar sem finna má skemmtilegar jólahugmyndir. Ekki má gleyma hugmyndum að jólagjöfum og listrænni innpökkun.

„Við erum stolt af því að sýna landsmönnum þetta fallega blað og bendum fólki á að geyma það. Blaðið má skoða aftur og aftur því þar má finna endalausar hugmyndir að góðum mat og fallegum jólaskreytingum,“ segir Elín Albertsdóttir, ritstjóri Jólablaðsins.