Lýsuhólslaug hefur opnað aftur eftir að hafa gengið í endurnýjun lífdaga. Steypt hefur verið ný laug, og formið gert aðeins náttúrulegra, einnig var steyptur nýr heitur pottur og kaldur pottur er einnig væntanlegur.

Snæfellsbær stendur fyrir breytingunum en laugin opnaði aftur 13. júní síðastliðinn eftir að hafa verið lokuð frá því í ágúst í fyrra. Sama heita ölkelduvatnið er í lauginni en laugin er að meðaltali 34 – 35 gráður. Sólarljósið og hitastigið í vatninu gerir það að verkum að grænþörungurinn chlorella myndast í vatninu og eykst vöxtur þeirra í sólarljósi. Chlorella er mýkjandi og græðandi og hefur gefið góða raun fyrir að psoriasisskjúklinga að baða sig í lauginni.

Viðbrögðin við endurbótunum hafa verið afar jákvæð segir Margrét Elfa Ólafsdóttir, starfsmaður sundlaugarinnar, í samtali við blaðamann. „Langflestir fastagestirnir eru ánægðir með breytingarnar og útlendingarnir elska þetta. Þeir eru mikið á höttunum eftir náttúrulegri upplifun."

„Umhverfið í kring er mjög fallegt. Lýsuhyrnan blasir við, en til stendur að grindverkið verði lagfært þannig að sundlaugargestir geti notið útsýnisins enn betur," segir Margrét..

Vonir standa til að Snæfellsbær hafi laugina opna einnig að vetri til en ekkert liggur enn fyrir í þeim efnum.

Mynd/Margrét Elfa Ólafsdóttir
Mynd/Margrét Elfa Ólafsdóttir
Mynd/Margrét Elfa Ólafsdóttir
Mynd/Margrét Elfa Ólafsdóttir