Kona sem er grunuð um innfluting á fíkniefnum þarf ekki að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi líkt og Héraðsdómur Reykjaness hafði úrskurðað, heldur nægir farbann til þriðjudagsins 27. september. Þetta var niðurstaða úrskurðar Landsréttar.

Konan, sem er erlendur ríkisborgari með lítil tengsl við Ísland, er grunuð um að hafa, ásamt annari konu, hafa flutt inn amfetamín í vínflöskum.

Í úrskurði Héraðsdóms segir að þann 15. ágúst hafi konurnar verið stöðvaðar af tollvörðum á Keflavíkurflugvelli.Við leit á farangri þeirra fundust fjórar eins lítra vínflöskur, en þær höfðu haft tvær með sér hvor.

Í flöskum þessum var glær vökvi og rannsókn tollvarða gaf til kynna að um væri að ræða amfetamín og við frekari rannsókn kom í ljós að um væri að ræða samtals 3800 millilítra. Enn á eftir að greina hversu mikið efni í neyslustyrkleika mætti framleiða úr vökvanum.

Þá segir að lögregla hafi komið á vettvang og handtekið konurnar. Að minnsta kosti önnur konan undirgekkst líkamsrannsókn með röntgenmyndatöku. Niðurstaðan var að hún væri ekki með neitt innvortis.