„Þetta er náttúrlega virkilega spennandi. Ég hef nú nokkrum sinnum selt kvikmyndarétt af bókum og eins og gengur þá gerist eitthvað eða það gerist ekkert og fram að þessu hefur aldrei neitt gerst.

Menn fá réttinn, sitja eitthvað með hann og skila honum síðan bara. Þannig virkar þetta en það sem er að gerast núna er dálítið stærra skref,“ segir glæpasagnahöfundurinn Ragnar Jónasson um áform bandaríska sjónvarpsrisans CBS Studios að framleiða sjónvarpsþáttaröð byggða á glæpasögu hans, Dimmu.

Ragnar seldi framleiðslufyrirtækinu Stampede réttinn af Dimmu fyrir tveimur árum eða svo en fyrirtækið er komið í samstarf við CBS um framleiðslu á efni fyrir sjónvarp frá öðrum löndum en Bandaríkjunum með birtingu á alþjóðlegum markaði í huga undir merkjum „Local for the World“.

Samkvæmt nýundirrituðum samningi fyrirtækjanna verður átta þátta röð byggð á fyrstu bókinni í þríleik Ragnars um rannsóknarlögreglukonuna Huldu Hermannsdóttur eitt fyrsta samstarfsverkefnið

„Þeir eru þá bara í rauninni að segja að þeir ætli að nýta þennan rétt og framleiða þætti og eru þá búnir að fá CBS í lið með sér að fjármagna. Þá fær maður svona á tilfinninguna að nú sé þetta kannski bara að fara að gerast og stóru tíðindin í þessu eru þá kannski að þá geta þetta væntanlega orðið fyrstu íslensku bækurnar sem bandarískur framleiðandi kvikmyndar. Ég man ekki til þess að það hafi gerst áður.“

Hulda í góðum höndum

Fyrsta bók Ragnars, Fölsk nóta, kom út 2009 og þar kynnti hann til leiks rannsóknarlögreglumanninn Ara Þór Arason á Siglufirði og í kjölfarið fylgdu fimm bækur um hann til viðbótar þangað til Ragnar gaf honum frí 2015 þegar Hulda stimplaði sig inn í Dimmu. Drungi kom út ári síðar og Mistur lokaði sögu Huldu 2017 en Ragnar segist frá upphafi hafa séð sögu lögreglukonunnar fyrir sér sem þríleik.

„Þýski bóka­markaðurinn er gríðar­lega stór og þetta sýnir svo ekki verður um villst að Ragnar er á meðal vin­sælustu höfunda Evrópu nú um stundir,“ segir Pétur Már Ólafs­son, út­gefandi hjá Bjarti og Ver­öld.
Anton Brink

„Ég held nú reyndar að ég hafi einhvern rétt á að vera framleiðandi af þessu og ráðgjafi. Það er náttúrlega frábært líka. En ég held að stóru ákvarðanirnar séu kannski komnar úr mínum höndum. Það er nú reyndar alltaf hættan við þetta og þegar maður selur frá sér kvikmyndaréttinn þá er maður svolítið að selja frá sér hjartað í leiðinni,“ segir Ragnar um þá staðreynd að hann sé ekki lengur einvaldur í lífi sögupersónu sinnar.

Þannig sé til dæmis ekki útilokað, ef vel gengur, að CBS og Stampede verði uppiskroppa með hráefni um Huldu sem bundið er í bókunum þremur. „Það verður þá bara að vera þannig. Ef þeir sem taka þetta upp á sína arma og gera sjónvarpsþætti vilja gera fleiri þætti um Huldu heldur en ég á efni til um hana þá held ég að ég geti nú lítið gert í því og það er þá bara lúxusvandamál,“ segir Ragnar.

„Maður þarf svolítið að sleppa takinu og þetta er þá í þeirra höndum og mér líst náttúrlega rosalega vel á CBS. Það er nú eiginlega ekki hægt annað. Ég held að þetta sé bara í frábærum höndum og allur þessi ferill með þessum bandarísku aðilum hefur bara verið mjög góður og jákvæður

Þeir láta mig vita af öllu sem er að gerast þannig að ég held hún sé í góðum höndum og ég hlakka bara til að sjá hana á skjánum. Sjá hver fær að leika hana og svona.“

Dan Brown fagnar

„Já, já. Ég er búinn að fá hamingjuóskir héðan og þaðan eins og til dæmis frá Dan Brown vini mínum. Hann sendi mér mjög hlýja kveðju í síðustu viku og gaf mér góð ráð hvernig ætti að höndla svona Hollywood,“ segir Ragnar þegar hann er inntur eftir viðbrögðum við tíðindunum að vestan.

„Hann hefur náttúrlega farið þessa leið nokkru sinnum,“ heldur Ragnar áfram og er varla á flæðiskeri staddur með annan eins ráðgjafa og höfund Da Vinci-lykilsins sem þekkir vel þær flækjur og hnúta sem verða til þegar spennuskáldskapur rennur saman við bandaríska kvikmyndaframleiðslu.

Dan Brown, höfundi Da Vinci-lykilsins, og Ragnari hefur orðið vel til vina og sá fyrrnefndi hefur þegar gefið Ragnari góð ráð í sambandi við stóra framleiðendur í Bandaríkjunum.
Fréttablaðið/Eyþór

Ragnar segir þar fyrir utan viðbrögðin við þessum tíðindum gegnumsneitt hafa verið mjög jákvæð og hann hafi ekki hafa orðið var við þann sígilda fylgifisk velgengninnar, íslensku öfundina.

„Nei, ég hef nú ekki orðið var við það. Ég hef líka þá tilfinningu að það hjálpi nú bara alltaf að kakan sé svo stór að hvert svona tilvik opni dyr fyrir einhvern annan. Ég held maður þurfi að horfa á þetta sem miklu stærri köku heldur en bara Ísland og allir geta hjálpað öllum. Það hefur allaveganna verið mitt mottó þannig að maður reynir að gefa til baka.“

Ragnar segist í þessum efnum hafa lært af Yrsu Sigurðardóttur og fleiri höfundum. „Þegar ég var að byrja þá var Yrsa mjög dugleg að koma mér á framfæri við tengiliði sína erlendis sem varð svo til þess að ég fékk útgáfusamning í Bretlandi og síðan hefur maður reynt að gera það sama eftir því sem hægt er,“ segir Ragnar og bendir á að gamli útgefandinn hans í Bretlandi „er núna að gefa út tvo aðra íslenska glæpasagnahöfunda sem voru ekki gefnir út erlendis á þeim tíma.“

Dimma og Mistur yfir Þýskalandi

Bækur Ragnars hafa selst í um einni og hálfri milljón eintaka, en þær eru gefnar út í um það bil 40 löndum á 27 tungumálum og hann er nú með þrjár bækur í tíu efstu sætunum á metsölulista Der Spiegel yfir mest seldu kiljur í Þýskalandi. Mistur, lokabókin í þríleiknum um Huldu, fór beint í fjórða sæti nýs lista. Þar sem fyrir voru Dimma í þriðja sæti og Drungi í tíunda.

Huldu þríleikur Ragnars er allur eins og hann leggur sig á topp tíu metsölulistanum yfir kiljur í Þýskalandi.

„Frakkland hefur fram að þessu hefur verið lang stærsta landið mitt og svo kannski Bretland og Bandaríkin þar á eftir. Þetta fór eiginlega ekki í gang í Þýskalandi fyrr en í sumar og Þýskaland er eiginlega allt í einu að verða stærsta landið mitt, einhverjum tíu árum eftir að fyrsta bókin mín kom út erlendis,“ segir Ragnar sem hefur áður verið gefin út á þýsku en það er fyrst núna sem hann slær í gegn með Huldu.

„Mistur er semsagt þriðja bókin mín sem kemur þar út í sumar og hún fór beint inn á metsölulistann þannig að í þessari viku verð ég með þrjár bækur á topp tíu í Þýskalandi og það hefur náttúrlega aldrei gerst áður hjá Íslendingi og ég er ekki viss um að það hafi bara gerst oft áður,“ segir Ragnar sem hefur það eftir kunnugum að slíkt sé fáheyrt.

„Þeir muna hreinlega ekki eftir fleiri dæmum. Þessi listi birtist á fimmtudaginn og það er náttúrulega bara hálf óraunverulegt að ímynda sér bækurnar á honum. Þetta er bara búið að vera mikið ævintýraár þó maður sé fastur heima.“

Engin leið að hætta

Ragnar steig sín fyrstu skref á glæpasagnabrautinni fyrir ellefu árum og jafn mörgum bókum síðan og óhætt að segja að honum hafi vaxið ásmegin hægt og bítandi.

„Þegar ég skrifaði fyrstu bókina ætlaði ég nú ekkert að skrifa tíu eða ellefu bækur en ég ætlaði svosem kannski ekki heldur að hætta alveg strax. Þetta byrjaði auðvitað rólega og fyrstu árin voru þetta náttúrlega engar metsölubækur hérna heima. Þetta svona bara mjatlaðist út og þetta tekur tíma,“ segir Ragnar sem hélt sínu striki sama á hverju gekk.

Þolinmæðin vann þessa þraut og Ragnar festi sig vandlega í sessi í efstu deild íslenskra krimmahöfunda. „Svo bara allt í einu dettur þetta inn og þá náttúrlega er ekki hægt að hætta og fyrir mér hefur þetta bara alltaf verið svo stórkostlegt áhugamál að þótt enginn væri að lesa bækurnar mínar þá væri ég samt að skrifa eitthvað,“ segir Ragnar sem hneigðist ungur til skáldaðra glæpa.

Snýst ekki um peninga

„Þetta eru bara bækurnar sem ég hef alltaf lesið mér til skemmtunar og þess vegna er ég að skrifa glæpasögur. Hillurnar mínar eru fullar af einhverjum gömlum glæpasögum. Ég hef svosem skrifað smásögur, ljóð og fleira sem hefur ekkert með glæpi að gera en þetta er bara það sem mér finnst skemmtilegast að gera,“ segir Ragnar og bætir við að hann hafi alls ekki valið glæpabrautina í trausti þess að slíkar bækur seljist betur en aðrar.

Ragnar ræddi við spennta aðdaéndur í útgáfuhófi Hvíta dauða í fyrra en sú bók er einn þeirra sem stendur sjálfstæð utan Siglufjarðarseríunnar og bókanna um Huldu.

„Þetta er vissulega allt annar heimur. Það er ekki hægt að segja annað. Það er virkilega erfitt að ætla að lifa af bókmenntum á Íslandi og það er augljóst að markaðurinn er mjög lítill þannig að með því að koma bókunum út er hægt að lifa af þessu og það er bara frábært,“ segir Ragnar um ótvíræða kosti þess að komast með krimmana út fyrir íslenska landhelgi.

„Það eru forréttindi og það getur náttúrlega haft sína kosti að geta eytt miklum tíma í þetta þótt maður sé ekki í þessu peninganna vegna. En þetta snýst bara um allt annað en það og bara það að fá nýja bók frá útlöndum og opna hana er eitthvað sem er ekkert hægt að setja verðmiða á.“

Þannig að þú ert ekki í þessu peninganna vegna?

„Alls ekki. Þetta hefur aldrei verið einhver bissniss,“ segir Ragnar sem þýddi bækur glæpadrottningarinnar Agöthu Christie áður en hann byrjaði að skrifa sínar eigin sakamálasögur.

„Maður fékk þarna einhvern veginn útrás fyrir sköpunarþörfina og ef ég var ekki að þýða þá var ég að skrifa smásögur og hvað eina. Ég hef alltaf verið að skrifa eitthvað og það er bara gaman að einhver sé að lesa það.“

Áhrif Agöthu

Ragnar segist hafa byrjað að lesa Agöthu Christie sér til mikillar skemmtunar þegar hann var ellefu eða tólf ára og hann gengst fúslega við henni sem sínum helsta áhrifavaldi enda hefur hann þýtt fjórtán skáldsagna hennar á íslensku. Sú fyrsta, Endless Night, kom út sem Sígaunajörðin 1994.

Ragnar segist líklega hafa verið tólf ára þegar hann byrjaði að skrifa glæpasögur en sú fyrsta gerðist í Bretlandi. „Þetta var svolítið innblásið af Agöthu Christie allt saman og verður ekkert gefið út,“ segir Ragnar um handskrifuð bernskubrekin sem hann geymir enn í stílabókum.

Ragnar er mikill aðdáandi glæpasagnadrottningarinnar Agöthu Christie og hefur þýtt fjórtán bækur hennar á íslensku.

„Bara svona til að minna mann á að þetta var ekkert einhver hugmynd sem ég fékk um þrítugt heldur er þetta búið að hrjá mig síðan í æsku og ég hugsa að ég haldi þessu nú alveg áfram á meðan ég fæ hugmyndir. Þetta er auðvitað frábært áhugamál sem er náttúrlega orðið vinna núna og kannski er það eina sem breytist með því að vera með samninga og bækur út um allan heim að maður þarf að taka þetta dálítið alvarlega og maður þarf að passa upp á að skrifa á hverjum degi,“ segir Ragnar sem gætir þess að láta velgengnina ekki trufla sig.

„Þótt ég fái einhverjar fréttir frá CBS þá sest ég samt niður um kvöldið og skrifa það sama og daginn áður. Það þarf svolítinn aga og þótt það komi frábærar fréttir frá Bandaríkjunum þá þýðir það ekkert að maður setjist bara niður og geri ekkert í mánuð. Ég virka ekki þannig og reyni að skrifa svona um það bil alltaf jafn mikið á dag. Þetta er draumastaða að vera í en þetta tekur allt tíma og maður þarf að passa upp á skipulagið.“

Sögur með glæpum

Þrátt fyrir miklar almennar vinsældir, eða ef til vill þeirra vegna, er hún þrálát tilhneigingin að tala glæpasögur niður og setja skörinni lægra en meintar fagurbókmenntir.

„Mér finnst það svolítið þreytandi umræða. Vegna þess að oft eru þetta náttúrlega bara sögur um allt annað en glæpi. Það eru bara glæpir í þeim sem knýja söguna áfram. Maður er oft að reyna að segja alls konar aðrar sögur heldur en akkúrat bara glæpasöguna sjálfa,“ segir Ragnar og nefnir bækurnar um Huldu sem hann hugsaði fyrst og fremst sem átakanlega ævisögu konu sem vill svo til að er rannsóknarlögregla.

„Hún er kannski fyrst og fremst ævisaga en svo finnur maður eitthvert sögusvið og setur inn dálítið aksjón og reynir að hræða lesendur aðeins á meðan maður er að segja söguna um hana, glæpasögu sem er samt ævisaga.“

Þýska for­lagið sem gefur út bækur Ragnars fór þá ó­venju­legu leið að láta mjög skammt líða á milli út­gáfu­daga bókanna í þrí­leiknum, en Dimma kom út í maí, Drungi í júlí og Mistur nú í septem­ber.
Anton Brink

Ragnar segir að honum hafi fundist ævisögulegi þátturinn það skemmtilegasta við að skrifa bækurnar um Huldu. „Síðan fléttaði maður einhvern glæp sem hún var að leysa inn í hverja bók í trílógíunni. En það var kannski ekki endilega glæpurinn sem var mikilvægastur fyrir mig heldur sagan hennar og ég vona að það skili sér svolítið líka til lesenda. Að þetta er kannski svolítið ævisaga konunnar. Hennar Huldu. Með glæpaívafi.“

Nýjasta bók Ragnars kom út á frönsku í þessum mánuði áður en hún kemur út á íslensku. „Það var ákveðið í fyrra að gera tilraun með að gefa hana út fyrst í Frakklandi. Ég hef aldrei gert þetta áður og þetta er nú bara vegna þess að það hefur gengið svo vel í Frakklandi að mér fannst ég kannski skulda lesendunum þar eina góða gjöf og þau kunnu mjög vel að meta það,“ segir Ragnar sem lokar fyrsta glæpahringnum sínum með nýju bókinni.

Aftur á byrjunarreit

„Þetta verður síðasta bókin í syrpunni um Ara á Siglufirði sem byrjaði 2009-2010,“ segir Ragnar sem skrifaði síðast um Ara Þór í Náttblindu 2014. „Ég átti alltaf eina sögu um hann óskrifaða. Ég var búinn að teikna hana upp í kollinum en fann aldrei rétta tímann til að koma með hana vegna þess að ég kom með Huldu í þremur bókum en mér fannst ég bara þurfa að koma þessari sögu frá mér.“

Ragnar segir þessa síðustu bók um Ara vera sér svolítið mikilvæga. „Vegna þess að þessar Siglufjarðarbækur um Ara eru komu mér fyrst á kortið úti í Bretlandi, Bandaríkjunum og svo Frakklandi.

Og síðan er Siglufjörður eiginlega minn annar heimabær. Pabbi ólst þar upp og ég er alltaf búinn að vera með annan fótinn þar og það er mjög gaman líka að geta tekið eina lokabók um Siglufjörð sem gerist núna. Það eru fimm, sex ár síðan síðast og það hefur mikið gerst á Siglufirði í millitíðinni,“ segir Ragnar sem er þegar byrjaður á bók næsta árs og upplýsir að engar aðalpersónur fyrri bóka hans verði með í þeirri bók sem segir sjálfstæða sögu sem gerist á hálendinu að vetrarlagi.