Síðustu daga hefur nokkuð borið á vafasömum SMS-sendingum frá kortasvindlurum. SMS-in eru titluð „important“ og látin líta út fyrir að vera boð varðandi pakkasendingu frá Póstinum.

Kristín Inga Jónsdóttir, forstöðumaður markaðsdeildar hjá Póstinum, sagði í Fréttablaðinu í gær að öryggisherferð frá Póstinum væri væntanleg á næstu dögum.

Brynja M. Ólafsdóttir, sérfræðingur hjá Regluvörslu Landsbankans, segir að skipulagðir glæpahópar notist við vörumerki flutningsfyrirtækja.

„Aðferðirnar eru þær að fólk heldur að það bíði eftir því pakki og það þurfi að greiða einhver gjöld fyrir pakkann. Þau líta sannfærandi út, þessi SMS. Þarna er svikahlekkur sem leiðir þig inn á síðu sem lítur út fyrir að hafa vörumerki flutningsfyrirtækisins. Þar ertu beðinn um kortaupplýsingar, gegnum þessa „feik“ greiðslusíðu, og þar er staðfestingarkóði með Visa-secure,“ segir Brynja.

Les ekki SMS-ið

Að sögn Brynju fellur fólk fyrir svikunum í fljótfærni.

„Fólk tekur bara takkakóðann, sem það fær með SMS, en les ekki SMS-ið. Þessir aðilar hafa kóðann efst, en söluaðili er annar, fjárhæðin og jafnvel gjaldmiðillinn,“ segir Brynja. Á endanum verði upphæðin allt önnur en fólk haldi.

„Í sumum dæmum er fólk beðið að samþykkja 1.500 krónur íslenskar, en greiðir svo 1.500 evrur,“ segir Brynja. Ekki sé hægt að endurheimta kröfur sem hafa farið í gegnum þetta ferli.

„Fólk er að tapa allt frá tugum upp í hundruð þúsunda í hverju tilviki. Við höfum ekki upplýsingar um fjölda þessara atvika, fólk tilkynnir þetta ekki til okkar og veit jafnvel að þetta er ekki endurkrefjanlegt. Þá er stundum einhver skömm til staðar.“

Magnús Árnason, framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar hjá Nova, segir gögnum yfir fjölda slíkra svikaskilaboða aðeins safnað samkvæmt dómsúrskurði. Í einstökum málum, þar sem brotin eru augljós, sé hægt að stíga inn í samráði við Fjarskiptastofu. Hann segist þó vissulega vel upplýstur um vandann.

„Okkar hlutverk er að halda netlínum og símtölum opnum og hnökralausum, en eðli þessarar netnotkunar er sú sama og hinnar almennu,“ segir Magnús.

„Þetta eru eiginlega alltaf mál sem er hægt að greina með gagnrýnni nálgun,“ segir Magnús. „En því miður er þetta alltaf að aukast.“

Þjófarnir verða sífellt betri

Að sögn Magnúsar verða þjófarnir sífellt betri í því að líkja eftir raunverulegum skilaboðum. Hann bætir við að þeir notist við þýðingar og nýjasta útlit. „Þessir glæpahringir innihalda Íslendinga.“

Magnús bendir á smáforrit í því samhengi, sem líkja eftir hringingum frá öðrum aðilum. Hann segir að hægt sé að verjast þeim með stillingum í símanum.

„Það þarf að passa sig á öllum linkum og hnöppum, benda fólki á það alla jafna. Vera mjög krítísk á það hvað er verið að smella á í tölvupóstum,“ segir hann.

Magnús vill minna fólk á að fara vel yfir öll lykilorð, breyta þeim reglulega og nota alls ekki sama lykilorðið á mörgum stöðum. „Það þarf að fjárfesta tíma í að skilja þetta og vanda sig. Það er engin auðveld lausn í þessu og 99 prósent öryggisbresta enda á mannlegum þáttum.

Heimsins öruggustu netkerfi eru ekki öruggari en lykilorðin sem fólk valdi,“ segir hann.

Magnús varar þó við því að beita of hörðum aðgerðum gegn svikum af þessu tagi, það geti heft aðgengi að öðrum aðgerðum sem netið hefur upp á að bjóða.