Breska ríkis­stjórnin ætlar að af­nema af­nota­gjöld fyrir breska ríkis­út­varpið BBC árið 2027. Þá verða fjár­fram­lög til stofnunarinnar fryst næstu tvo árin, sam­kvæmt til­kynningu frá ríkis­stjórninni en The Guar­diangreinir frá.

Menningar­mál­ráð­herra Bret­lands, Nadine Dorries, segir að ár­lega af­nota­gjaldið sem Bretar greiða fyrir BBC muni haldast ó­breytt til ársins 2024 en síðan mun það hækka ör­lítið næstu þrjú árin. Bretar greiða nú 27 þúsund krónur á ári í af­nota­gjald fyrir ríkis­út­varpið.

Mun þetta ekki vera í fyrsta skitpi sem ríkis­stjórn í Bret­landi endur­skoðan starf­semi BBC en John Whittingda­le, fyrr­verandi menningar­mála­ráð­herra Bret­lands, boðaði breytingar árið 2015. Breska ríkis­út­varpið er fjár­magnað af af­nota­gjöldum að mestu en gjöldin skiluðu um 3,2 milljörðum punda til BBC í fyrra sem sam­svarar ríf­lega 564 milljörðum ís­lenskra króna.

Nadine Dorries menningar­mál­ráð­herra Bret­lands.
Fréttablaðið/Getty

Dorries segir í yfir­lýsingu að nú­verandi breytingar marka enda­lok af­notunar­gjaldsins sem vekur ugg hjá ein­hverjum um fram­tíð BBC.

„Þessi til­kynning um breytingar á af­notunar­gjöldunum verður sú síðasta. Dagarnir þar sem eldri borgurum er hótað fangelsi og réttar­þjónar koma bankandi á hurðina hjá fólki eru taldir. Nú er komið að því að ræða nýjar leiðir til að fjár­magna, styrkja og selja frá­bært breskt sjón­varps­efni,“ segir Dorries.

Stjórn­endur BBC eiga eftir að funda með ríkis­stjórnina um fram­tíðar fjár­mögnunar­fyrir­komu­lag sem myndi þá taka gildi 2027. Fjöl­miðlar í Bret­landi eru nú þegar byrjaðir að velta upp hvort hluti af sjón­varps­fram­leiðslunni verður einka­rekinn eða hvort það verður boðið upp á á­skriftar­gjald.

Breska ríkisútvarpið þarf nú þegar að skera niður til að skila taplausum rekstri.
Fréttablaðið/Getty

„Dagar ríkis­rekins sjón­varps eru taldir“

The Mail on Sunday hefur eftir starfs­manni Dorries að það ráðu­neytið búist við mikillri um­ræðu um hvort breytingin muni skerða vin­sælt sjón­varps­efni BBC. Starfs­maðurinn sem kemur ekki fram undir nafni segir hins vegar að breska ríkis­út­varpið getur alveg lært að draga úr ó­þarfa út­gjöldum líkt og önnur fyrir­tæki.

Strax í næstu viku hefst vinna við að breyta fjár­mögnum stofnunnarinnar

„Dagar ríkis­rekins sjón­varps eru taldir,“ er haft eftir starfs­manninum sem kemur ekki fram undir nafni en nefnir Net­flix og Youtu­be sem dæmi í því sam­hengi.

Þrátt fyrir nærri 565 milljarða ís­lenskra króna í af­nota­gjöld hefur kostnaður BBC við sjón­varps­gerð hækkað gríðar­lega vegna verð­bólgu og aukinnar sam­keppni m.a. frá Net­flix.

Sam­kvæmt Guar­dian þarf BBC að fara í mörg hundruð milljóna punda niður­skurð á þessu ári til að ná að skila taplausum rekstri.

Breska þjóðin er sögð þurfa undir­búa sig undir kostnaðar­samt leikið efni og í­þrótta­um­fjöllun verði það fyrsta sem lendir á skurð­borðinu. Þá er talið lík­legt að ríkis­út­varpið þurfi einnig að loka ein­hverjum af stöðvum sínum.