Tekist er á um breytingar­til­lögur við fjár­mála­stefnu og fjár­mála­á­ætlun fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neytisins á þinginu í dag. Ljóst er að tekjur ríkisins dragast saman miðað við fyrri spár á sama tíma og út­gjöld aukast. Á­ætlunin byggir að mestu á þjóð­hags­spá Hag­stofunnar.
For­sendur fjár­mála­á­ætlunarinnar sem lögð var fram í vor og gerði ráð fyrir 1,7% hag­vexti á árinu eru brostnar. Sam­dráttur í ferða­þjónustu og afla­brestur í loðnu eru sagðar megin­á­stæður breyttra efna­hags­horfa sam­kvæmt til­kynningu fjár­mála­ráðu­neytisins.


Fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, Bjarni Bene­dikts­son hefur mælt fyrir breytingum á fjár­mála­stefnu fyrir árið 2020 – 2024 sem taka mið af sam­drættinum en hann er talinn leiða til tekju­skerðingar ríkis­sjóðs í ár og næstu ár vegna minni um­svifa ferða­þjónustunnar, minni vaxtar einka­neyslu og minni at­vinnu­vega­fjár­festingar.


Ekki sé ráð­legt að hækka skatta

Willum Þór Þórs­son, for­maður fjár­laga­nefndar kynnti til­lögu um að setja inn svig­rúm fyrir frá­vik í fjár­mála­stefnu sem er ný­mæli og jafn­framt hækka það miðað við fyrri á­ætlun.
„Við erum með fjár­mála­á­ætlun sem er í gólfi stefnunnar,“ segir Willum. „Verið er að setja meiri sveigjan­leika í stefnuna þannig að á­ætlunin geti betur haldið.“
Lagt er til að ó­vissu­svig­rúm verði hækkað úr 0,4% í 0,8 % af vergri lands­fram­leiðslu, vegna spár Hag­stofunnar um sam­drátt upp á 0,2%.
Einnig sagði Willum að sam­kvæmt nefndar­á­liti sé ekki ráð­legt að grípa til veru­legra að­halds­að­gerða og hækka skatta, meiri­hluti fjár­laga­nefndar taki heils­hugar undir þetta sjónar­mið.


Gjöld hækka meira en tekjur

„Í heildina séð hafa bæði frum­tekjur og frum­gjöld hækkað frá fyrri á­ætlun en gjöldin þó meira,“ segir í nefndar­á­liti fjár­laga­nefndar. „Þar munar um breyttar launa­for­sendur en einnig er nú á­ætluð aukin fjár­festing í sam­göngum, lenging fæðingar­or­lofs og aukin stofn­fram­lög hús­næðis­mála. Í stórum dráttum hefur lækkun vaxta­gjalda á undan­förnum árum verið nýtt til að hækka frum­gjöldin. Í stórum dráttum hefur lækkun vaxta­gjalda á undan­förnum árum verið nýtt til að hækka frum­gjöldin. Í heildina þá er á­ætlunin nú um 40 milljörðum kr. hærri en fyrri á­ætlun."


Sam­tök Iðnaðarins nefna í nýrri greiningu sinni um hag­stjórn í niður­sveiflu að til­lagan um breytingu á fjár­mála­stefnu ríkis­stjórnarinna sé of bjart­sýn spá. Sam­kvæmt henni er reiknað með 0,2% sam­drætti í ár sem stafi að mestu af 2,5% minnkun út­flutnings og gert ráð fyrir að hag­kerfið vaxi um 2,6% á næsta ári vegna bata í út­flutningi og fjár­festingu.
Ágúst Ólafur Ágústs­son, þing­maður Sam­fylkingarinnar lýsti einnig fyrir á­hyggjum sínum af því að for­sendur fjár­mála­á­ætlunarinnar væru of bjart­sýnar á þinginu í dag.
Tekur Ágúst sem dæmi að hann telji á­hrif líf­kjara­samninganna á á­ætlunina of lítil og að at­vinnu­leysi mundi aukast meira en gert er ráð fyrir.
Í nefndar­á­liti segir að ekki sé gert ráð fyrir veru­legri aukningu at­vinnu­leysis. Spáð er að það aukist að­eins um 0,4 prósentu­stig og verði 3,7% á árinu en lækki strax á næsta ári í 3,2% sem er nánast ó­breytt frá því sem var í fyrra.


Jafn­framt gagn­rýndi Ágúst niður­skurð til ýmissa mála­flokka og sagði á­ætlunina „slæmt plagg“.
Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála­ráð­herra svaraði Ágústi og sagði ekki um niður­skurð að ræða heldur að verið væri einungis verið að draga úr út­gjalda­aukningu. „Við erum stolt af þeim til­lögum sem liggja fyrir í þinginu,“ sagði Bjarni um á­ætlunina. „Hvar eru merkin um að allt hafi farið úr­skeiðis? Eru þau í kaup­mætti heimilanna? Í 400 milljarða af­gangi ríkisins frá 2013? Eða í nýjum láns­kjörum ríkis­sjóðs?