Gjaldtaka er hafin á bílastæði við náttúruperluna Hveri austan Námaskarðs. Plani hefur verið lokað þar sem fólk gat áður lagt bíl án greiðslu. Nýtt og stórt plan er komið þess í stað. Upplýsingaskilti með QR-kóða hafa verið sett upp og fer gjaldtakan fram með rafrænum hætti. Að því gefnu að ferðamenn sinni fyrirmælum.

Blaðamaður Fréttablaðsins kannaði staðhætti á Hverum í gærmorgun. Virtist mjög upp og ofan hvort ferðamenn sem lagt höfðu bílum greiddu gjaldið eða ekki.

Sumir báru því við, er spurt var hvort þeir hefðu greitt fyrir stæðin, að þeir skildu ekki upplýsingarnar. Aðrir, þar á meðal íslenskur bílstjóri sem sat í eigin rútu meðan farþegar hans spígsporuðu um svæðið, benti á að hann sæi engar eftirlitsmyndavélar. Hann myndi ekki greiða gjald ef hann þyrfti þess ekki. Enginn starfsmaður var á þessum tíma til að fylgja gjaldtökunni eftir.

Félagið Sannir landvættir stendur að gjaldtökunni fyrir bílastæðin. Sama félag sá um uppbyggingu, malbikunarframkvæmdir og fleiri kostnaðarsamar breytingar á svæðinu. Sannir landvættir hafa staðið fyrir svipaðri framkvæmd við Laufskálavörðu og Kirkjufell. Hlut í félaginu í Mývatnssveit eiga landeigendur í Reykjahlíð.

Guðrún María Valgeirsdóttir landeigandi sagði í samtali við Fréttablaðið fyrir skömmu eðlilegt að gestir greiddu gjald fyrir þjónustu, umsjá og vernd svæðisins. Hún gagnrýndi Umhverfisstofnun fyrir að hafa ekki sinnt bráðalokun þegar svæðið spilltist fyrir nokkrum árum og taldi eðlilegra að einka­aðilar sæju um slík mál. Gjaldtaka var reynd við Leirhnúk og Hveri árið 2014. Hún var stöðvuð skömmu síðar að kröfu hluta landeigenda. Staðfesti Hæstiréttur lögbann á gjaldtöku Landeigenda Reykjahlíðar ehf. tveimur árum síðar.

Hverir hafa nú bæst við vaxandi fjölda ferðamannastaða þar sem rukkað er fyrir aðgengi að náttúruperlum sem áður var ókeypis. Hærra gjald er rukkað fyrir stóran bíl en lítinn.

Gjaldtaka er fyrirhuguð við Fjaðrárgljúfur eins og Fréttablaðið hefur greint frá, eftir sölu jarðar sem á stærstan hluta landsins við gljúfrið.