Ef gjaldtaka vegna nagladekkja verður að veruleika í Reykjavík er líklegt að notkun nagladekkja myndi þverra mjög með jákvæðum áhrifum á umhverfi. Þetta er mat Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

„Í Noregi hefur náðst mjög góður árangur. Hlutfall bifreiða á nagladekkjum hefur snarminnkað eftir gjaldtöku sveitarfélaga,“ segir Svava Svanborg Steinarsdóttir, verkefnisstjóri hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

Fréttablaðið sagði frá því í gær að í uppfærðri loftgæðaáætlun Umhverfisstofnunar verður lagt til að sveitarfélög fái heimild til að leggja á skatt vegna nagladekkja. Í Noregi er gjaldið um 20.000 íslenskar krónur.

Brýnt er að bæta loftgæði auk þess sem viðhaldið á götum stóreykst með nöglum. Þá eykst umferðarhávaði mjög á veturna vegna nagladekkja að sögn Svövu.

„Að fækka nöglum myndi bæta lífsgæði borgarbúa á margan hátt.“

Reykjavíkurborg hefur árum saman staðið fyrir herferðum til að draga úr notkun nagladekkja. Rannsóknir sýna að ýmsir kostir eru í boði sem gera sama gagn og naglar í ákveðnum aðstæðum að sögn Svövu. Til að Reykjavík komi á naglagjaldi þarf fyrst breytingu á umferðarlögum á Alþingi.

„Við höfum í viðbragðsáætlun ávarpað mikilvægi þess að koma á gjaldi en það skortir heimild til þess í umferðarlögum,“ segir Svava.

„Það væri mjög jákvætt ef Alþingi myndi setja lög um þetta. Þá væri sveitarfélögum í sjálfsvald sett hvort þau koma þessu gjaldi á.“