Á fundi skipu­lags- og sam­göngu­ráðs Reykja­víkur­borgar í gær var sam­þykkt að lengja gjald­skyldu á gjaldsvæði 1 til klukkan 20 á virkum dögum og á laugar­dögum og að bæta við gjald­skyldu á svæðinu á sunnu­dögum frá klukkan 10 til 16.

Þá var einnig sam­þykkt að stækka gjald­svæði 1 í miðborginni, þannig að, sem dæmi, Borgar­tún, frá Katrínar­túni að Bríetar­túni, falli einnig undir það, og því gjald­skyldan orðin hærri þar en var áður. Hér er hægt að sjá hvaða götur falla nú undir gjaldsvæði 1.

Gatan var áður á gjald­skyldu 2. Tals­verður munur er á verði á svæði 1 og 2 en sam­kvæmt gjald­skrá Bíla­stæða­sjóðs kostar ein klukku­stund á gjald­svæði 1 370 krónur en 190 krónur á gjald­svæði 2.

Til­lögurnar voru báðar sam­þykktar af full­trúum Pírata, full­trúa Við­reisnar og full­trúa Sam­fylkingarinnar með fyrir­vara um sam­þykki lög­reglu­stjóra höfuð­borgar­svæðisins.

Tillaga Bílastæðasjóðs um breytingu á gjaldsvæði
Mynd/Bílastæðasjóður

„Allt snýst þetta um að gera bílafólki eins erfitt fyrir og hægt er“

Á­heyrnar­full­trúi Flokks fólksins, Kolbrún Baldursdóttir, bókaði sömu bókun við báðar til­lögur. Þar gagn­rýnir hún að „allt sé gert til að gera bíla­fólki eins erfitt fyrir og hægt er, að koma á bílnum sínum í bæinn.“

Hún segir að annar ó­sýni­legur á­vinningur af gjörðinni sé sá að Ís­lendingar sem búi í út­hverfum muni hætta að leggja leið sína í mið­bæinn og segir að­gerðirnar harka­legar á meðan strætó sé ekki fýsi­legur kostur fyrir fólk.

„Flokkur fólksins vill í­treka að borgin er fyrir alla, líka þá sem koma á bíl sínum. Í það minnsta er nokkuð ljóst að þetta mun varla leiða til þess fólk sem býr langt frá mið­bænum á­kveði nú að leggja bíl sinum og koma hjólandi í mið­bæinn. Allir vita að það mun varla gerast. Fólk notar bíl sinn af mörgum á­stæðum,“ segir að lokum í bókun hennar.

Í samræmi við stefnu um bílastæðamál

Full­trúi Pírata, full­trúar Sam­fylkingarinnar og full­trúi Við­reisnar gagn­bókuðu á fundinum við báðar bókanir að stækkun gjald­skyldra svæða og lenging gjald­skyldu­tíma væri í sam­ræmi við þá stefnu sem mótuð hefur verið og út­færð í stýri­hópi um bíla­stæða­mál.

„Mark­miðin eru: betri stýring um­ferðar, hag­kvæmari nýting stæða og auknar tekjur. Sann­gjörn gjald­taka hvetur til fjöl­breyttari ferða­máta og minnkar um­fang þess að fal­legt borgar­rými sé nýtt sem lang­tíma­geymslu­svæði fyrir bíla.“

Pawel Bar­toszekm sem situr i skipu­lags- og sam­göngu­ráði segir frá breytingunni á Twitter-síðu sinni. Þar sköpuðust fjörugar um­ræður um bíla­stæða­mál í mið­borginni. Hægt er að skoða það hér að neðan.