Um næstu mánaða­mót mun ný gjald­skrá Strætó hækka um 12,5 prósent. Það kemur fram í til­kynningu frá Strætó en hækkunin var sam­þykkt á fundi stjórnar um miðjan septem­ber­mánuð. Stök far­gjöld og tíma­bil­skort munu öll taka sömu verð­breytingu. Sem dæmi má nefna að stakt far­gjald fer úr 490 krónur í 550 krónur og 30 daga nema­kort fer úr 4.000 krónur í 4.500 krónur og tímabilskort fyrir fullorðna úr 8.000 krónum í 9.000 krónur.

Í til­kynningu Strætókemur fram að gjald­skráin hafi verið ó­breytt frá því um ára­mótin 2020/2021 en hún tók þá breytingum þegar nýtt greiðslu­kerfi, Klapp, tók gildi í nóvember 2021.

Í til­kynningu segir að verð­hækkunum sé ætlað að mæta al­mennum kostnaðar­verðs­hækkunum á að­föngum Strætó svo sem olíu­verðs­hækkunum, en olíu­verð hefur hækkað um tæp 40 prósent frá ára­mótum og kostnaði vegna vinnu­tíma­styttingar, sem hefur haft veru­leg á­hrif á reksturinn.

Þá segir að á­hrifa heims­far­aldurs CO­VID gæti enn í rekstrinum og það sé út­lit fyrir að upp­söfnuð á­hrif á tekjum séu á bilinu 1500 milljónir króna til 2000 milljóna króna.

„Á­vallt er reynt að stilla öllum verð­hækkunum Strætó í hóf og er hækkuninni ætlað að draga úr þörf á frekari hag­ræðingu í leiða­kerfi Strætó á höfuð­borgar­svæðinu. Jafn­framt munu sveitar­fé­lög á höfuð­borgar­svæðinu skoða að styrkja rekstur Strætó frekar en gert var ráð fyrir í fjár­hags­á­ætlun ársins 2022,“ segir í til­kynningunni og að árið 2030 sjái Strætó fyrir sér að vera með kol­efnis­lausan flota og að þá muni á­hrif olíu­verðs ekki lengur hafa eins mikil á­hrif á reksturinn.

Þá kemur fram að gjald­skrár­breyt­ing­arn­ar taka til þjón­ustu Strætó á höfuð­borgar­svæðinu en ekki til akst­urs­þjón­ustu fyr­ir fatlað fólk en þar verða eng­ar breyt­ing­ar á gjald­­skrá.

Nýja gjald­skrá má sjá hér að neðan og á vef Strætó.

Gjaldskrá Strætó 1. okt. 2022

STÖK FARGJÖLD

Fullorðnir 550 kr.

Ungmenni 275 kr.

Aldraðir 275 kr.

Öryrkjar 165 kr.

Börn, 11 ára og yngri 0 kr.

Tímabilskort 30 daga 12 mánaða

Fullorðnir 9.000 kr. 90.000 kr.

Ungmenni 4.500 kr. 45.000 kr.

Aldraðir 4.500 kr. 45.000 kr.

Öryrkjar 2.700 kr. 27.000 kr.

Börn, 11 ára og yngri 0 kr. 0 kr.