Í skriflegu svari innviðaráðuneytisins við spurningu Fréttablaðsins um virkni 3. mgr. 17. gr. póstlaga nr. 98/2019 segir að vangaveltur ráðuneytisins á síðasta ári í svari til Morgunblaðsins um „virkni“ hennar hafi mátt rekja til þágildandi 2. mgr. 17. gr. sömu laga.

  1. mgr. kvað á um sama verð á alþjónustu með bæði bréf og pakka um allt land. Samkvæmt svari ráðuneytisins var það með vangaveltur um samspil 2. mgr. við 3. mgr. 17. gr. sem er orðrétt:

„Gjaldskrár fyrir alþjónustu, þar á meðal gjaldskrár vegna erlendra póstsendinga, skulu taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði. Gjaldskrár skulu vera auðskiljanlegar og gæta skal jafnræðis og tryggja gagnsæi.“

Í svarinu er vísað til þess að ráðuneytið hafi leiðrétt að það teldi vafa leika á virkni 3. mgr. 17. gr. og er þar vísað til bréfs ráðuneytisins til Félags atvinnurekenda 26. mars 2021 þar sem segir:

„Ef svar ráðuneytisins til Morgunblaðsins er lesið í heild og í samhengi kemur í ljós að ekki er um að ræða afstöðu ráðuneytisins til þess hvort 3. mgr. sé að öllu leyti virk.“

Í niðurlagi svars ráðuneytisins til Fréttablaðsins segir orðrétt: „… og eru ákvæði laga um póstþjónustu nr. 98/2019, sbr. lög nr. 76/2021, í fullu gildi.

Að ofangreindu er ljóst að ráðuneytið hefur aldrei talið neinn vafa leika á virkni 3. mgr. 17. gr. laganna, enda eru lagaákvæði gildandi laga virk þar til Alþingi fellir þau úr gildi eða breytir.

Með þessu viðurkennir innviða­ráðuneytið að lækkun gjaldskrár Íslandspósts fyrir pakkasendingar sem tók gildi í byrjun árs 2020 og leiddi til tapreksturs á þeirri þjónustu brýtur gegn virkri 3. mgr. 17. gr. póstlaga, sem kveður á um að gjaldskrár fyrir alþjónustu skuli taka mið af raunkostnaði við að veita hana að viðbættum hæfilegum hagnaði.

Athyglisvert er að enginn kannast við að hafa tekið ákvörðun um ofangreinda lækkun gjaldskrár fyrir pakkasendingar. Bjarni Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður Íslandspósts og núverandi þingmaður og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, benti á Birgi Jónsson, þáverandi forstjóra, sem aftók það með öllu, enda er það stjórnin sem fer með vald til að ákveða gjaldskrá – innan ramma laganna.

Þar sem gjaldskrárlækkun alþjónustu Íslandspósts sem tók gildi í ársbyrjun 2020 var ólögleg er ljóst að ríkisframlag til Íslandspósts upp á 260 milljónir fyrir árin 2020 og 2021 vegna þeirrar lækkunar stenst ekki lög.

Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að fyrirtæki í samkeppni við Íslandspóst hafi kært ákvörðun Byggðastofnunar, Á-1/2022, um 132 milljóna framlag til Íslandspósts vegna reksturs á árinu 2021 á grundvelli kvaðar um sömu gjaldskrá um allt land til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála. Rökin eru ólögmæti undirverðlagningar sem brjóti í bága við 3. mgr. 17. gr. póstlaga.