Þann 24. júlí síðastliðinn var gjaldskrá Þjóðkirkjunnar fyrir aukaverk presta, svo sem skírnir og fermingar, hækkuð um um það bil 8,5 prósent. Samkvæmt nýjum lögum ber kirkjuþingi að gera gjaldskránna en áður var hún gerð af ráðherra. Þar sem fresta þurfti kirkjuþingi í tvígang vegna heimsfaraldursins greip Kirkjuráð til þess neyðarúrræðis að setja gjaldskrá.

Sem dæmi þá hækkar ferming um 1631 krónu, hjónavígsla um 1060 krónur, skírn um 571 og útför um 2121 krónu. Peningarnir renna ekki til kirkjuráðs eða sókna heldur prestanna sjálfra og er þetta því mismikið hagsmunamál fyrir þá eftir því hversu mörgum athöfnum þeir sinna. Síðasta gjaldskrá var sett á árið 2017.

Stefán Magnússon, bóndi í Fagraskógi og kirkjuráðsmaður, segir ákvörðunina hafa verið neyðarráðstöfun. Engu að síður hafi hann sett sig upp á móti henni af prinsippástæðum.

„Þarna var kirkjuráð að gera breytingar á gjaldskrá sem strangt til tekið er kirkjuþings að gera,“ segir Stefán. „Í ljósi þeirra umbreytinga sem hafa orðið eftir samninga milli ríkis og kirkju taldi ég eðlilegt að breytingin ætti að bíða kirkjuþings í september.“ Segir hann að kirkjuþing verði að fara fram í næsta mánuði, ekki sé hægt að fresta því lengur.

Samkvæmt lögum er kirkjuráði heimilt að setja gjaldskrá til bráðabirgða að uppfylltum ákveðnum skilyrðum ef nauðsyn krefst þess. Segir Stefán að heimildin til gjaldtöku hefði fallið niður ef ekkert hefði verið gert. Taldi Stefán hins vegar eðlilegra að kirkjuráð myndi ákveða að staðfesta fyrri gjaldskrá og bíða með breytingar fram að þingi. Hækkanirnar sem slíkar setji hann sig ekki upp á móti og á frekar von á því að hún verði staðfest á kirkjuþingi.

„Það er svo önnur umræða hvort það ætti yfir höfuð að vera að taka gjald fyrir þessi verk, sem stundum eru kölluð aukaverk,“ segir Stefán. En breytingar á öllu fyrirkomulaginu séu nauðsynlegar ef það yrði gert.

Ninna Sif Svavarsdóttir, formaður Prestafélagsins og sóknarprestur í Hveragerði, segir félagið sátt við gjaldskrárbreytinguna sem sé í samræmi við lög og reglur sem gilt hafi um aukaverk presta. „Hækkunin er ekki mikil frá 2017 þegar gjaldskráin var síðast uppfærð,“ segir hún.

Ninna segir útilokað að segja hversu stór hluti af heildartekjum presta þetta sé, enda mjög mismunandi milli þeirra. „Það er ekki mitt að segja til um hvað gerist á kirkjuþingi en það kæmi mér mjög á óvart ef hún tekur breytingum í meðförum þess,“ segir hún aðspurð um hvort hún búist við breytingum í september.