Isavia hefur brugðist við forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag með tilkynningu á vef sínum. Félagið greinir frá því að gjaldskrá innanlandsflugvalla hafi verið tekin til skoðunar.

Fréttablaðið greindi frá því í dag að geti kostað minna að leggja einkaflugvél á Reykjavíkurflugvelli í fimm daga heldur en í bílastæðahúsi á Hafnartorgi á sama tíma. Fréttin byggði á gjaldskrá Isavia og staðfesti félagið að útreikningarnir væru réttir.

„Vinna við gerð nýs samnings hefst um næstu áramót. Þá verða ýmsir fletir samningsins skoðaðir og má gera ráð fyrir að gjaldskrá verði þar á meðal,“ er haft eftir Sigrúnu Björk Jakobsdóttur, framkvæmdastjóra Isavia Innanlandsflugvalla.

Í tilkynningu félagsins er vitnað í frétt Fréttablaðsins. í tilkynningunni segir að gjaldskráin verði á meðal þess sem tekið verði tekið til skoðunar þegar þjónustusamningur íslenska ríkisins við Isavia um rekstur innanlandsflugvalla á Íslandi verði endurskoðaður á næsta ári.

Núgildandi samningur er frá árinu 2019 og rennur út í lok árs 2023. Fram kemur að gjaldskráin sé staðfest af innviðaráðuneytinu og hún taki breytingum árlega og er hækkunin byggð á launa- og neysluvísitölu eins og hún stendur í septembermánuði árið á undan.