Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir mikilvægt að muna að íslenskt hagkerfi stendur vel um þessar mundir en hún hefur þrátt fyrir það þungar áhyggjur af stöðu WOW, að því er fram kemur á vef RÚV. Hún segir að forsvarsmenn flugfélagsins hafi átt fund með Samgöngustofu þar sem farið hafi verið yfir þeirra áætlanir.

„Við vitum að það er verið að safna saman skuldabréfaeigendum til þess að skoða einhverja aðgerðir fyrir félagið og við fylgjumst með því en óvissan er auðvitað mikil,“ segir Katrín sem segir að gjaldþrot WOW yrði mikið högg fyrir ferðaþjónustuna.

„En við bindum auðvitað enn þá vonir við það að þetta geti gengið hjá félaginu,“ sagði Katrín sem minnti aftur á að íslenskt hagkerfi stæði vel um þessar mundir og að skuldastaða ríkisins hefði batnað. Þá fullyrti Katrín jafnframt að Isavia hafi „ákveðnar tryggingar fyrir skuldum WOW air.“ Samkvæmt heimildum Markaðarins er um að ræða skilmála sem Isavia hefur sett flugfélaginu, en félagið þarf ávallt að hafa að minnsta kosti eina flugvél úr flota félagsins tiltæka á Keflavíkurflugvelli og þannig geti Isavia kyrrsett umrædda vél lendi WOW í greiðsluerfiðleikum. 

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, greindi frá því í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag að ekki stæði til að hlaupa undir bagga með WOW air, þar sem honum þyki ekki réttlætanlegt að setja skattfé inn í áhætturekstur. Ríkisstjórnin muni því ekki afturkalla fjármálálaætlun þrátt fyrir óvissuna sem ríkir í kringum WOW air.