Seðlabanki Íslands telur að gjaldeyrisútboð bankans á árunum 2011-2015 hafi þjónað tilgangi sínum og flýtt verulega fyrir afnámi fjármagnshafta. Þetta eru niðurstöður nýrrar skýrslu bankans. Um hafi verið að ræða vanda sem hefði ekki verið auðvelt að leysa á annan hátt nema á mjög löngum tíma. Auk þess hafi ekki verið bent á aðra leið sem náð hefði sömu markmiðum án verulegrar áhættu, bæði lagalegar og efnahagslegar.

Skýrsla Seðlabankans um gjaldeyrisútboð

Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir í formála skýrslunnar að bankinn sé að bregðast við þeirri skyldu sinni að veita upplýsingar og útskýra aðgerðir sínar. Ekki sé hins vegar um eiginlega rannsóknarskýrslu að ræða.

Í skýrslunni leitast Seðlabankinn við að svara þeirri gagnrýni sem beinst hefur að umræddum gjaldeyrisútboðum og þá sérstaklega vegna svokallaðrar fjárfestingarleiðar. Bankinn viðurkennir að þessum útboðum hafi fylgt ýmis neikvæð hliðaráhrif en að jákvæðu áhrifin vegi þyngra.

Gjaldeyrisútboðin voru hluti áætlunar stjórnvalda um afnám fjármagnshafta sem var samþykkt í mars 2011. Eitt meginviðfangsefnið var að taka á aflandskrónum sem námu þá um fjórðungi landsframleiðslunnar. Alls tókst með útboðunum að lækka þessar erlendu krónueignir um 175 milljarða króna. Aflandskrónur fóru með því niður í um 13 prósent landsframleiðslunnar.

„Það má einnig færa rök að því að útboðin hafi örvað innlenda fjárfestingu og stutt við eignaverð þegar á þurfti að halda,“ segir einnig í formála Más.

Seðlabankinn svarar gagnrýni

Nokkur atriði sem hafa verið gagnrýnd varðandi útboð Seðlabankans eru sérstaklega til umfjöllunar í skýrslunni. Þannig er farið yfir það hvort eigendur aflandskróna hafi fengið ósanngjarnt forskot á innlenda aðila til að kaupa gjaldeyri. Bankinn bendir á að aflandskrónueigendur hafi greitt fyrir forgang sinn að gjaldeyri með dýru verði. Þá sé ólíklegt að eftirspurn innlendra aðila eftir gjaldeyri á útboðsgenginu hefði orðið mikil. Bankinn hafi fyrst og fremst verið að horfa til þjóðhagslegra hagsmuna.

Þá svarar bankinn einnig fyrir þá gagnrýni að innlendir aðilar sem átt hafi óskilaskyldan gjaldeyri hafi fengið ósanngjarnt forskot á aðra við kaup á ódýrum krónum. Telur bankinn þessa gagnrýni í mótsögn við þá sem áður var nefnd. Ekki geti hafa verið bæði eftirsóknarvert að kaupa erlendan gjaldeyri á útboðsgenginu og krónur í útboðinu. Aðalatriði málsins sé hið þjóðhagslega markmið bankans sem hafi verið að draga úr áhættu á útstreymi fjármagns við losun hafta.

Hvað varðar þá gagnrýni að Seðlabankinn hefði átt að koma í veg fyrir að „óæskilegir aðilar“ tækju þátt í fjárfestingarleiðinni, svara bankinn að skilyrði fyrir þátttöku hafi verið formlegs eðlis að langmestu leyti en ekki efnisleg. Bankanum væri ekki heimilt að fara inn á valdsvið annarra stjórnvalda og eftirlitsstofnana og hefði þar að auki ekki getað aflað upplýsinga um fjárfesta frá lögreglu eða saksóknara. Að því sögðu hafi verið sett skilyrði í skilmála fjárfestingarleiðarinnar að aðilar hefðu ekki mátt hafa verið kærðir til lögreglu, ákærðir, eða sætt rannsókn Seðlabankans vegna meintra brota á lögum um gjaldeyrismál.

Einnig er farið yfir þá gagnrýni að útboðin hafi leitt til aukinnar misskiptingar auðs og tekna, jafnvel til aðila á lágskattasvæðum. Bankinn telur þessar spurningar eiga rétt á sér en þeim sé hins vegar ekki auðsvarað. Ekki sé hægt að útiloka það að útboðin hafi skekkt skiptingu tekna og auðlegðar. Hins vegar þurfi að velta því upp hvað hefði gerst ef útboðsleiðin hefði ekki verið farin. Ljóst sé að efnahagslegur hvati hafi verið nauðsynlegur til þess að aðgerðirnar myndu skila árangri.

Varðandi aðila á lágskattasvæðum segir að sú gagnrýni sé að mörgu leyti eðlileg í ljósi sögunnar. Þó beri að hafa í huga að fjárfestingar aflandsfélaga hafi aðeins numið 2,4 prósentum af heildarumfanginu. Það sé vandséð hvernig koma hefði átt í veg fyrir fjárfestingar þessara aðila.