Á­frýjunar­dóm­stóll hefur svipt Rudy Giuli­ani lög­manns­réttindum sínum í New York fylki fyrir að hafa logið að dóm­stólum þegar hann reyndi að fá tap Donald Trump í banda­rísku for­seta­kosningunum 2020 dæmt ó­gilt.

Í úr­skurði siða­nefndar lög­mannanna sem tóku á­kvörðun um að svipta Giuli­ani lög­manns­réttindum segir að það séu „ó­um­deilan­legar sannanir“ fyrir því að Giuli­ani hafi logið að dóm­stólum, al­menningi og lög­gjöfum er hann reyndi að bera fram kenningar sínar um að ­kosningunni hefði verið stolið af Donald Trump með svikum.

„Þetta land er að klofna í sundur vegna í­trekaðra á­rása á lög­mæti kosninganna 2020 og nú­verandi for­seta okkar Joseph R. Biden. Gæða­stimpill lýð­ræðis okkar grund­vallast á frjálsum og sann­gjörnum kosningum. Falskar stað­hæfingar sem ætlað er að grafa undan trausti gagn­vart kosningum og þar af leiðandi trausti gagn­vart ríkis­stjórninni skaðar rétt­mæta virkni frjáls sam­fé­lags,“ segir í úr­skurði siða­nefndarinnar.

Eykur líkurnar á að fleiri fylki svipti hann réttindum

Úr­skurðurinn mun gera Giuli­ani ó­kleift að starfa sem lög­maður í New York fylki og gera hann skyldugan til að greina öðrum fylkjum frá sviptingunni sem mun auka líkurnar á að hann verði sviptur lög­manns­réttindum víðar um Banda­ríkin.

Giuli­ani hefur áður neitað því að hafa logið að dóm­stólum og lýsti því yfir að rann­sóknin á hæfi hans sem lög­manns brjóti gegn stjórnar­skrár­bundnum réttindum hans til mál­frelsis. Á­frýjunar­dóm­stóllinn hafnaði þeim rökum Giuli­anis al­farið.

Sætir rannsókn hjá alríkislögreglunni

Giuli­ani hefur verið einn helsti stuðnings­maður Donald Trump og ýtt undir sam­særis­kenningar þess efnis að for­seta­kosningarnar í nóvember síðast­liðnum hafi ekki farið fram með lög­mætum hætti.

Á blaða­manna­fundi sem Giuli­ani hélt daginn eftir að Biden var lýstur sigur­vegari kosninganna lýsti hann kosningunum sem einu alls­herjar sam­særi. Fundurinn varð hins vegar frægari fyrir þær sakir að mis­tök hjá starfs­fólki Giuli­anis leiddu til þess að hann var ekki haldinn á hótelinu Four Sea­sons, eins og á­ætlað var, heldur fyrir framan vöru­skemmu fyrir­tækisins Four Sea­sons To­ta­l Lands­caping.

Úr­skurðurinn kemur á sama tíma og Giuli­ani liggur undir rann­sókn banda­rísku al­ríkis­lög­reglunnar á á samskiptum hans við stjórnvöld í Úkraínu. Al­ríkis­lög­reglan gerði hús­leit á heimili og skrif­stofu Giuli­anis í New York í apríl síðast­liðnum þar sem lagt var hald á tölvur og síma meðal annars. Sú rann­sókn er þó ekki ein af á­stæðum þess að Giuli­ani var sviptur lög­manns­réttindum sínum.