Rudy Giuli­ani, fyrr­verandi borgar­stjóri New York og einn af lög­fræðingum Donalds Trumps, er sagður hafa sagt ó­satt um meinta líkams­á­rás sem hann varð fyrir í mat­vöru­verslun um liðna helgi.

Giuli­ani var staddur í úti­búi Shop­Ri­te á Sta­ten Is­land á sunnu­dag til að kynna stefnu­mál sonar síns, Andrew Giuli­ani, sem sækist eftir því að verða ríkis­stjóri New York.

Giuli­ani sagði að starfs­maður hefði komið aftan að honum og slegið hann fast með þeim af­leiðingum að hann datt næstum því. Starfs­maðurinn hafi svo látið fúk­yrðum rigna yfir borgar­stjórann fyrr­verandi vegna á­kvörðunar Hæsta­réttar Banda­ríkjanna í máli sem kennt er við Roe v Wage.

Eric Adams, demókrati og nú­verandi borgar­stjóri New York, hefur látið að því liggja að lýsing Giuli­ani, sem er repúblikani, á at­vikinu hafi verið nokkuð fjarri sann­leikanum.

„Það þarf ein­hver að minna borgar­stjórann fyrr­verandi, Giuli­ani, á að það er glæpur að til­kynna um glæp sem ekki átti sér stað,“ sagði Eric Adams við blaða­menn.

Í um­fjöllun Guar­dian kemur fram að Giuli­ani hafi lýst því að starfs­maðurinn hafi slegið hann svo fast að engu væri líkara en að hann hefði orðið fyrir byssu­kúlu. Adams segir að þetta sé ekki rétt miðað við upp­tökur úr öryggis­mynda­vélum sem hafa verið birtar opin­ber­lega.

„Þegar þú horfir á mynd­bandið þá er aug­ljóst að starfs­maðurinn gengur að honum og klappar honum á bakið. Hann var ekki sleginn í höfuðið. Það er ekki eins og hann hafi orðið fyrir byssu­kúlu og það er klárt að hann var ekki ná­lægt því að detta í jörðina,“ sagði Adams.

Starfs­maðurinn var hand­tekinn af laganna vörðum eftir at­vikið og var hann í haldi lög­reglu í sólar­hring áður en honum var sleppt. Í augum Adams er ljóst að sak­sóknara­em­bættið í New York hefur rangan mann til rann­sóknar. Hinn eini sanni söku­dólgur sé í raun Rudy Giuli­ani fyrir að til­kynna um glæp sem ekki var framinn.