Starfsfólk félagsþjónustu fyrir fötluð börn á vegum Norðurþings gisti í Orkuhúsi Húsavíkur ásamt börnum þvert á tilmæli slökkviliðs. Þetta kemur fram í grein á vef Vikublaðsins.

Börn með fatlanir fá skammtímavistun á vegum félagsþjónustunnar í allt að tvær helgar í hverjum mánuði frá klukkan 16 á föstudögum til 16 á sunnudögum. Fá þá börnin gistingu og dagskrá yfir daginn. Þjónustan bíður einnig upp á frístund, dagvistunarúrræði eftir skóla á virkum dögum. Hefur Orkuhúsið verið notað undir bæði starfsemi og gistingu.

Uppfyllir ekki kröfur

Slökkviliðsstjóri Norðurþings lagði blátt bann við gistingu í húsinu í byrjun september eftir úttekt með tilliti til brunavarna. Húsið uppfyllir ekki kröfur sem gistihús að mati slökkviliðs og þarf að uppfylla skilyrði um klæðningar en húsið er klætt spónarplötum að innan. Spóninn er mikill eldmatur og þegar spónaplötur brenna losna hættulegar eiturgufur.

Skýrsla um úttektina var send sviðsstjórum Norðurþings þann 7. september en einungis fjórum dögum síðar var gist í húsinu.

Háalvarlegt brot

Hróðný Lund, félagsmálastjóri Norðurþings, sagðist harma mistökin þegar Vikublaðið leitaði svara. Sagðist hún líta málið mjög alvarlegum augum og yrði það tekið til skoðunar innanhúss.

Grímur Kárason slökkviliðsstjóri sagði málið háalvarlegt og klárt brot. Honum var brugðið þegar blaðamaður Vikublaðsins greindi honum frá þessu.

„Ábyrgðin er alltaf í höndum húseiganda sem í þessu tilfelli er þá væntanlega sveitarfélagið, sem er háalvarlegt. Þetta er ekkert grín, þetta hús er ekki gert fyrir gististarfsemi og þarna er verið að tala um börn. Mér finnst þetta mikill ábyrgðarhluti þegar fólk hagar sér ekki eins og lagt er fyrir það,“ sagði Grímur í samtali við Vikublaðið og ítrekaði að þetta væri ekki í boði. Alvarlegir brunar á árinu hafi kostað mannslíf.

Fjölskylduráð Norðurþings samþykkti húsaleigusamning við Orkuveitu Húsavíkur vegna húsnæðis þeirra í eigu að Vallholtsvegi 3 á fundi þann 22. Júní síðastliðinn. Með tilkomu samningsins var Frístund fyrir fötluð börn komin með húsnæði næstu tvo árin.

Sveitarfélagið hefur nú samið við gistiheimili á Húsavík sem bráðabirgðaúrræði sem verður nýtt undir gistingu fyrir starfsmenn og börn.