Móttökustjóri á hóteli segist nánast daglega sjá neikvæðar umsagnir hótelgesta sem kvarti undan verðlagningu. Hún hefur ekki orðið vitni að öðru eins.

Ferðaþjónusta Erlendir ferðamenn segja að hátt verð á gistingu spilli helst annars ánægjulegri upplifun þeirra af Íslandi. Starfsmaður Icelandair hótels í Mývatnssveit segir um varhugaverða þróun að ræða þar sem ekki sé samræmi milli gæða og verðlagningar.

Eftir Covid-dvalann hefur verð á þjónustu víða um heim hækkað nokkuð og Ísland er þar engin undantekning. Fréttablaðið er á yfirreið um landið og hefur rætt við nokkra erlenda gesti um þeirra upplifun á verðlagningu. Greg Wallace og Clifton Cong eru á ferð í Mývatnssveit og segjast þeir hafa brugðið á það ráð áður en þeir tóku þá ákvörðun að heimsækja Ísland að sleppa því hreinlega að gista á hótelum.

„Maður vissi að Ísland væri ekki ódýrt land og við hegðum okkur í samræmi við það,“ sögðu þeir ferðalangar, brosandi í sólinni í Mývatnssveitinni í gær. Þeir eru Ameríkanar og segjast hafa flutt með sér megnið af matnum sem þeir muni neyta hér.

Þessir Ameríkanar biðu þess að komast á klósettið í Mývatnssveitinni. Ameríkanar eru nú verðmætasti kúnnahópurinn í ferðaþjónustunni.
Mynd/BjörnÞorláksson

Fleiri og fleiri tala neikvætt um verð á Íslandi

Ferðamenn við Skútustaði og í Dimmuborgum lýstu mismunandi viðhorfum. Franskur ferðamaður sagði hótelverð allt of hátt. „Nei, ég vil ekki móðga ykkur,“ sagði hann þegar spurt var um nafn. Annar erlendur ferðamaður benti á að í sumum Evrópuríkjum mældist verðbólga nú allt að 16 prósent en samt hefði verð á gistingu á hótelum ekki hækkað í sumar. Það væri varla verjandi að eins manns herbergi kosti nú víða 45.000-65.000 krónur og enginn lúxus fylgi með.

Claudia Kawalez er móttökustjóri í Icelandair hótelinu í Reynihlíð. Hún segist kannast við vaxandi óánægju með verðlagningu á gistingu.

„Við sjáum í umsögnum gesta að fleiri tala neikvætt um gistiverðið á Íslandi en þau sumur sem ég hef starfað í ferðaþjónustu hér,“ segir Claudia. „Þetta ástand hefur ekki neikvæð áhrif á bókanir, ekki þetta sumarið, en það er spurning hvað gerist til framtíðar,“ bætir móttökustjórinn við.

Það færist í vöxt að erlendir ferðamenn telji að verð á gistingu og gæði þjónustu fari ekki saman, að sögn móttökustjóra Icelandair Hotel í Reynihlíð.
Mynd/BjörnÞorláksson

Margir verða óánægðir með reikninginn

Claudia segir að ef hún beri sumarið saman við sumrin fyrir Covid hafi hótelgestir almennt verið ánægðir með allt.

„Nú er þetta að breytast, væntingar ferðamanna um þjónustu vaxa vegna hins háa gistiverðs. Margir verða óánægðir, því þeim finnst ekki samræmi milli verðlags og þeirra gæða sem eru í boði,“ segir Claudia. „Ég held að ferðamenn séu síður líklegir en áður til að mæla með Íslandi við vini og fjölskyldu vegna þessa.“

Claudia segir þetta vandamál. „Ég hef aldrei séð gesti nefna reglulega að verðið sé allt of hátt, ekki fyrr en í sumar. Nú kemur þetta nánast daglega fram,“ segir hún.