Kostnaður ferðamanna af hótelgistingu og bílaleigum á Íslandi er áberandi miklu meiri en víðast hvar á meginlandi Evrópu, en sérstaka athygli vekur við eftirgrennslan Fréttablaðsins að verðlagningin í ferðaþjónustunni hér á landi slær líka við þeim öðrum löndum álfunnar sem teljast vera með þeim dýrustu, svo sem Noregi.

Fréttablaðið hefur á síðustu dögum viðað að sér upplýsingum um verðlagningu í þessum geira ferðaþjónustunnar og niðurstaðan er skýr. Ísland sker sig algerlega úr hvað dýrtíðina varðar – og tala þar tölur sínu máli, hvort heldur er varðandi bílaleigu eða hótelgistingu.

Þrettán daga leiga á sjálfskiptum Audi A3 fólksbíl í Noregi, sem leigður er á Gardemoen-flugvellinum við Osló, kostar ferðalanginn rétt tæplega 96 þúsund krónur. Ódýrasti bíllinn á Íslandi í sambærilegum flokki fyrir jafn marga daga er verðlagður á 137 þúsund krónur, en ef nákvæmlega sama tegund af sjálfskiptum Audi A3 er leigð á Íslandi í þennan tíma þarf að greiða fyrir hana 192 þúsund krónur.

Það merkir að ferðamenn á Íslandi þurfa að greiða meira en tvöfalt meira fyrir þýskan fólksbíl á Íslandi en sambærilega bifreið í Noregi, sem á þó að heita eitt dýrasta ferðamannaland í heimi. Samt er lægri virðisaukaskattur á íslenskum bílum en norskum og þar að auki bera íslenskir bílar ekki tolla, ólíkt því sem viðgengst í Noregi.

Allt ber að sama brunni hvað aðra þjónustu varðar á Íslandi, svo sem hótelgistingu. Og enn tala þar tölurnar skýrustum hætti.

Athugun Fréttablaðsins leiðir í ljós að næturgisting á Radisson Blu Plaza í miðborg Oslóar kostar að jafnaði 25 þúsund krónur í komandi mánuði nú um stundir, en um fjögurra stjörnu hótel er að ræða á besta stað í borginni, um einn kílómetra frá aðaltorgi hennar.

Á sama tíma er næturgistingin á Grand Hotel Reykjavík verðlögð á 50 þúsund krónur, en það er staðsett helmingi lengra frá miðborg Reykjavíkur en sambærilegt hótel í Osló. Verðið er sumsé tvöfalt hærra á Íslandi en í Noregi.

Ef farið er ívið nær miðborginni, og gist í eina nótt á Icelandair Hotel Reykjavík Natura, sem eitt sinn hét Hótel Loftleiðir, á sambærilegum sumartíma, þarf að gjalda 54 þúsund krónur fyrir viðvikið.

Svipaða sögu er að segja af öðrum löndum í álfunni samkæmt athugun Fréttablaðsins. Þannig kostar næturgisting á Hilton Garden Inn í Frankfurt í Þýskalandi rúmar 20 þúsund krónur í júlí, sem telst vera innan háannar ferðamannatímans þar í landi, en þar er einnig um fjögurra stjörnu hótel að ræða.

Allt að öllu bendir þessi samantekt til þess að Ísland skeri sig rækilega úr í verðlagningu í ferðaþjónustu, ekki bara almennt séð innan álfunnar, heldur og á meðal dýrustu ferðamannastaða hennar.