Gissur Sigurðs­son frétta­maður til margra ára er látinn. Þetta kom fram í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Gissur starfaði á frétta­stofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar í aldar­fjórðung en hann hætti störfum formlega í fyrra­sumar, rúmlega sjö­tugur að aldri. Gissur lést á Land­spítalanum í gær eftir að hafa glímt við veikindi um nokkurt skeið.

Gissur var vin­sæll út­varps­maður og voru frá­sagnar­hæfi­leikar hans ein­stakir. Hann sagði fréttir á Bylgjunni og frétta­yfir­lit í Bítinu klukkan 07:30 og 08:30 alla virka morgna. „Hann sagði í raun og veru mikla meira en bara fréttir, hann sagði sögur,“ sagði Gunn­laugur Helga­son, Gulli Helga, þegar hann minntist Gissurar í þættinum í morgun.

Heimir Karls­son, sem staðið hefur vaktina í Bítinu í mörg ár, sagði að Gissur hefði fært frétta­mennskuna upp á annað plan. „Ein­stakur maður, bráð­fyndinn, bráð­skarpur og sá fréttirnar oft í réttu ljósi og sagði skemmti­lega frá,“ sagði Heimir sem sendi að­stand­endum og vinum Gissurar sam­úðar­kveðjur.

Gissur lét af störfum í júlí í fyrra­sumar og var hann kvaddur með virktum af kollegum sínum á frétta­stofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis. Þórir Guð­munds­son, rit­stjóri frétta­stofunnar, til­kynnti þegar Gissur hætti að hljóð­ver frétta­stofunnar hefði fengið nafnið Gissurar­stofa. Í frétt Vísis frá því í fyrra­sumar kom fram að Gissur hafi við þetta til­efni klippt á borða við mikinn fögnuð kollega sinna.

Gissur var fæddur í Hraungerði í Flóa þann 7. desember 1947. For­eldrar hans voru Stefanía Gissurar­dóttir og séra Sigurður Páls­son vígslu­biskup. Þau fluttu á Sel­foss árið 1956 þegar Gissur var níu ára og var hann næst­yngstur af sjö syst­kinum.

Gissur hóf starfs­feril sinn í blaða­mennsku hjá Al­þýðu­blaðinu um tví­tugt, án þess að vera með nokkurt form­legt nám að baki. Hann varð fyrsti rit­stjóri tíma­ritsins Sjávar­frétta og þótti flytja fréttir af sjávar­út­vegi af mikilli þekkingu, enda hafði Gissur stundað sjó­mennsku á sínum yngri árum.

Í fram­haldinu tók hann þátt í stofnun Dag­blaðsins sem var fjálst og óháð dag­blað sem breyttist síðar í Dag­blaðið Vísi, sem er í dag kallað DV. Ferill hans sem út­varps­maður hófst hjá Frétta­stofu Ríkis­út­varpsins í kringum 1980 þar sem hann starfaði í 16 ár, eða þar til hann flutti sig um set til frétta­stofu Bylgjunnar.

Hann sá um morgun­fréttir Bylgjunnar við miklar vin­sældir lands­manna eins og að framan greinir, enda þekktur fyrir ein­staka frá­sagnar­gáfu og húmor. Eftir 25 far­sæl ár á Bylgjunni lauk hann starfs­ferli sínum sjö­tugur að aldri.

Gissur skilur eftir sig fjögur börn, eina stjúp­dóttur og 7 barna­börn. Börnin hans eru: Guð­björg, út­gefandi Gissur Páll, söngvari, Jón Grétar, kvik­mynda-og þátta­gerða­maður, Hrafn­hildur, mynd­listar­maður og sýningar­stjóri, Helga Auðar­dóttir, sál­fræðingur