Gísli Finnsson, sem dvalið hefur á sjúkrahúsi á Torrevieja á Spáni undanfarnar vikur, er væntanlegur til landsins í dag með norsku sjúkraflugi. Áætlað er að flugvélin lendi á sjötta tímanum í dag á Reykjavíkurflugvelli.
Þegar Fréttablaðið náði tali af Hildi Torfadóttur, barnsmóður Gísla, var flugvélin nýlent í Glasgow á Skotlandi til að taka eldsneyti.
„Þetta er bara geggjuð tilfinning. Mér finnst bara svo ótrúlegt, samhugurinn hjá þessu fólki sem var að leggja inn hjá okkur. Ég veit ekki, maður er bara svo þakklátur að við höfðum náð að safna þessu og koma honum heim,“ segir Hildur um söfnunina sem aðstandendur Gísla hrundu af stað í síðustu viku. Áætlað var að sjúkraflugið kostaði sex milljónir.
Að sögn Hildar er Jökull Egilsson, frændi Gísla, með í för, en hann er búinn að vera á Spáni í viku að vinna að þessum degi.
„Gísli fer í sjúkrabíl og beint á Landspítalann í Fossvogi. Það er enn ekki alveg vitað á hvaða deild hann fer, en hann fer í allsherjar rannsóknir. Þá fáum við kannski loksins að vita hvað er að honum, af því maður hefur fengið svo fá svör,“ segir Hildur.
Gísli, sem er 35 ára gamall þriggja barna faðir, fannst meðvitundarlaus utan dyra þann 21. ágúst síðastliðinn eftir að hafa farið út á lífið með félögum sínum í Torrevieja. Fréttastofa RÚV gerði málinu skil í síðustu viku þar sem kom fram að Kolbrún Gígja Björnsdóttir, barnsmóðir Gísla, hefði fengið símtal frá kunningja hans um að eitthvað hefði komið upp á og Gísli væri mögulega á Spítala.
Frekari upplýsingar komu ekki fram og könnuðust spítalar ekki við að hafa fengið Gísla til sín. En eftir viku leit fannst Gísli á sjúkrahúsi eftir að borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins hér á landi og lögreglan á Spáni lögðu hönd á plóg. Ekki er vitað hvað nákvæmlega gerðist, en ljóst er að Gísli hlaut heilaskaða og sýnir hann afar lítil viðbrögð þegar spænsku læknarnir ræða við hann.
Fréttastofa RÚV gerði málinu skil í síðustu viku, þar sem kom fram að Kolbrún Gígja Björnsdóttir, barnsmóðir Gísla, hefði fengið símtal frá kunningja hans um að eitthvað hefði komið upp á og Gísli væri mögulega á spítala. Frekari upplýsingar komu ekki fram og könnuðust spítalar ekki við að hafa fengið Gísla til sín. Eftir viku leit fannst Gísli á sjúkrahúsi eftir að borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins hér á landi og lögreglan á Spáni lögðu hönd á plóg.
„Við erum þakklát öllum þeim sem hafa hjálpað,“ segir Hildur, og bætir við að þrátt fyrir að þau séu komin með það sem þau þurfi ætli þau ekki að loka söfnunarsíðunni.
Aðspurð segist hún ekki viss um hvort hún fari á flugvöllinn til að taka á móti honum þar sem hann fari beint í sjúkrabíl og á spítala.
„Við vorum að pæla fjölskyldan að mæta á völlinn með confetti og ég veit ekki hvað og hvað, en ég veit ekki alveg hvert planið er að svo stöddu,“ segir Hildur.
Þá séu börn Gísla himinlifandi yfir því að hitta pabba sinn aftur.
„Það er bara eintóm gleði hér,“ segir Hildur.