Gísli Rúnar Jónsson féll frá þann 28. júlí síðastliðinn, 67 ára að aldri. Eftir hann liggja ógrynni öll af persónum og verkum sem lifa munu áfram með þjóðinni.

Leikstjórinn Þórhildur Þorleifsdóttir segir að fallinn sé frá mikill hæfileikamaður sem verði sárt saknað. Samvinna þeirra spannaði hálfa öld eða allt frá því að Gísli Rúnar birtist skyndilega fyrir framan útidyr hennar og eiginmanns hennar, Arnars Jónssonar, á Akureyri og vildi nema leiklist.

„Ég hafði aldrei séð þennan pilt fyrr og man sérstaklega hvað klæðaburður hans var sérstakur. Hann var klæddur í glæsilegan ullarfrakka og hélt á stresstösku þannig að hann minnti helst á háttsettan opinberan starfsmann. Mér brá síðan þegar í ljós kom að hann var bara á sautjánda aldursári,“ segir Þórhildur og hlær að minningunni.

Þórhildur segir hæfileika Gísla Rúnars hafa verið augljósa og að samvinna þeirra í leikhúsinu hafi verið afar ánægjuleg. „Hann var sjéní og það er ekki auðvelt að vera sjéní. En það var frábært að leikstýra honum og þá má ekki gleymast að hann var einn okkar allra besti þýðandi.“

f60240315 torhildur 02.jpg

Þórhildur Þorleifsdóttir

Þýðingarnar lágu svo vel fyrir Gísla Rúnari að oft skilaði hann inn fjölmörgum hugmyndum um hvernig tilteknar setningar skyldu vera þýddar.

„Gallinn var sá að tillögurnar voru iðulega allar svo góðar að maður lenti í stökustu vandræðum. Ég bað hann því oft sjálfan um að velja það sem honum þætti best, ég gæti ekkert staðið í þessu,“ segir Þórhildur kímin.

Gísli Rúnar átti auðvelt með að skapa eftirminnilegar persónur og ein sú minnisstæðasta sem hann átti þátt í er brúðan Páll Vilhjálmsson sem vann hug og hjörtu landsmanna á sínum tíma. Kjarabarátta við Sjónvarpið varð til þess að Gísli Rúnar gaf út hina sígildu hljómplötu Algjör Sveppur sem byggðist á Páli án þess að það kæmi fram vegna réttindamála.

„Ég var aðdáandi og þegar verið var að ákveða heitið á okkar fyrstu kvikmynd – „Algjör Sveppi og leitin að Villa“ – var nafnið augljós tilvísun í verk Gísla Rúnars,“ segir skemmtikrafturinn Sverrir Þór Sverrisson, Sveppi. Sú tilvísun var tekin alla leið er Gísli Rúnar skrifaði handrit að barnaleikritinu „Algjör Sveppi“ árið 2010 með Sveppa í aðalhlutverki.

F06030817 Sveppi42.jpg

Sverrir Þór Sverrisson

„Ég fékk áfall þegar Gísli Rúnar færði okkur handritið að sýningunni. Þetta voru um 200 síður og hugmyndaauðgin ótrúleg. Ef einhver maður gat grínað yfir sig þá var það Gísli Rúnar,“ segir Sveppi. Hann og leikstjóri sýningarinnar, Felix Bergsson, hafi átt fullt í fangi með að velja bestu bitana svo sýningin yrði ekki heill skóladagur að lengd.

Ég nötraði af stressi þegar Gísli Rúnar kom á sýninguna en sem betur fer hló hann manna mest. Hláturinn var svo smitandi að ég vildi að hann hefði mætt á hverja einustu sýningu.“