Gísli Rúnar Jónsson er látinn 67 ára gamall.

„Með djúpri sorg tilkynnum við fjölskyldan að okkar ástkæri Gísli Rúnar Jónsson leikari, leikstjóri, handritshöfundur og þúsundþjalasmiður er látinn," segir í tilkynningu frá aðstandendum.

Hann lést að heimili sínu þann 28. júlí síðastliðinn.

Gísli Rúnar er fæddur í Reykjavík árið 1953 og hneigðist hugur hans snemma til leiklistarinnar. Hann skapaði margar eftirminnilegar persónur á leiksviði, í sjónvarpi og útvarpi.

Gísli Rúnar leikstýrði og lék í fjölda áramótaskaupa og grínþáttum s.s. Föstum liðum eins og venjulega, Heilsubælinu í Gervahverfi, þáttunum um Bibbu á Brávallagötunni, Búbbunum og fl.

Leik Gísla Rúnars má sjá í kvikmyndum eins og í myndunum um Stellu, Magnúsi, Stuttum frakka og Hvítum mávum. Þá leikstýrði hann fjölda sjónvarpsauglýsinga og stjórnaði skemmtiþáttum.

Hann var giftur leikkonunni Eddu Björgvinsdóttur um árabil en eftir að þau skildu voru þau miklir vinir. Þau eiga saman tvo syni, leikarann Björvin Franz Gíslason og Róbert Óliver Gíslason.