Gísli Marteinn Baldurs­son, sjón­varps­stjarna og Euro­vision frömuður með meiru, mun lýsa fyrri undan­keppni Söngva­keppninnar í ár úr sótt­kví á hótel­ber­bergi sínu í Rotter­dam. Ís­lenski hópurinn er, eins og frægt er orðið, í sótt­kví eftir að smit kom upp í teyminu á sunnu­daginn.

„Þó svo að enginn hafi reynst smitaður eftir skimun í gær þá má ég samt ekki fara út, þannig að í dag er ég bara inni á her­bergi, eins og í allan gær­dag líka,“ segir Gísli í sam­tali við Frétta­blaðið. Teymið mun fara í aðra skimun á morgun og fimmtu­dag og reynist enginn smitaður munu Daði og Gagna­magnið fá að stíga á svið á fimmtu­dag.

Veður í stemmningu

Hvað sem því líður mun Gísli þurfa að halda uppi stemmningunni í fyrri undan­keppninni í kvöld, einn á hótel­her­bergi sínu. „Ég er bara með hand­ritið mitt í tölvunni og svo bara fæ ég beina út­sendingu af keppninni til að fylgjast með,“ segir Gísli sem hefur engar á­hyggjur af tækni­legum örðug­leikum.

„Sem betur fer tókum við með okkur græju sem hefur verið notuð við út­varps­gerð á Rás 2 í beinni, þannig við erum með beina tengingu inn á hljóð­rásir RÚV.“ Hefði græjan orðið eftir á Ís­landi hefði Gísli lýst keppninni í símanum. „Það hefði lík­lega verið betra hljóð en var oft á þessum lýsingum í gamla daga, segir Gísli hlægjandi.

Möltu var lengi spáð sigri í keppninni.

En mun það ekki hafa á­hrif á stemmninguna að vera einn á hótel­her­bergi?

„Það verður að koma í ljós, en þessir klefar sem maður er í höllinni eru nú oft þannig að maður sér ekki einu sinni niður á sviðið,“ viður­kennir Gísli sem er yfir­leitt komið fyrir uppi í rjáfri í höllinni. „Ég hef meira að segja verið í klefa sem var hálf­partinn fyrir aftan sviðið svo ég sá aftan á þá sem voru að koma fram.“

Að­spurður hvort nú­verandi að­stæður gætu því túlkast sem skref upp á við kveðst Gísli þó muna sakna þess að finna lyktina af keppninni. „Ég er sjálfur í betri að­stæðum en ég er venju­lega í þessum litla kústa­skáp en vissu­lega finnur maður ekki fyrir bassanum dúndrast á líkamanum eins og í höllinni.“

Gísli prufu­keyrði lýsinguna á dómararennslinu í gær og segir allt hafa gengið eins og í sögu. „Ég var sjálfur í vaðandi stemmningu þrátt fyrir að vera einn inni á her­bergi.“

Ísrael gæti valdið usla

Keppnin í kvöld lofar veru­lega góðu að mati Gísla sem bendir á að meðal annarra muni Ísrael stíga á svið. „Það verður fróð­legt. Nú erum við ekki með neinn Hatara til að halda uppi merkjum Palestínu en það verður gaman að sjá hvort þau hafi komið af stað ein­hverju trendi og ein­hver laumist til að flagga palestínska fánanum.“

Gísli kveðst sjálfur vera í vand­ræðum með hvernig eigi að kynna at­riði Ísraels til sögunnar. „Þetta eru skrítnir tímar til að sjá Ísraela í Eurostuði á sviðinu.“

Fyrri riðillinn sterkari

Gísli spáir því að bæði Sví­þjóð og Noregur komist á­fram í kvöld. „Það er meira að segja smá séns að allar Norður­landa­þjóðirnar verði með á laugar­daginn.“ Einnig telur Euro­vision sér­fræðingurinn að Litháen komist á­fram á­samt Möltu, sem lengi var spáð sigri í keppninni. „Upp­á­halds­lagið mitt í kvöld er samt Úkraína, sem flutt er á frum­málinu.“

Fyrri riðillinn var þar til ný­lega talinn mun sterkari en sá seinni en þróunin á æfingar­tíma­bilinu hefur hins vegar sett strik í reikninginn. „Það hafa mörg lög í okkar riðli vaxið mikið á meðan önnur í fyrri riðlinum hafa verið að ströggla.“

Gísli er ekki í neinum vafa um að kvöldið verði frá­bær skemmtun og mun hann gera sitt besta til að vera í sínum allra hressasta gír. „Ég mun reyna að vera skemmti­legur og segja nokkra vel valda brandara.“